Fara í efni

Refaskyttur Skagafjarðar fengu góða heimsókn

28.04.2023
Ester Rut kryfur ref og Birgir Árdal fylgist með. Mynd: Kári Gunnarsson.

Refaskyttur sveitarfélagsins Skagafjarðar fengu góða heimsókn á árlegan fund veiðimanna og landbúnaðarnefndar í Ljósheimum á fimmtudag. Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, hélt fræðsluerindi um íslenska melrakkann og fór yfir helstu niðurstöður refarannsókna, sem gerðar hafa verið á Íslandi og erlendis á síðustu áratugum. Erindið var hið fróðlegasta og fyrirspurnir og umræður í framhaldi af því.

Að loknu erindinu var veiðimönnum boðið í húsnæði Náttúrustofu Norðurlands vestra, til að vera viðstaddir þegar Ester Rut krufði nokkra refi, sem veiddir voru í Skagafirði síðasta vetur. Starri Heiðmarsson, starfsmaður Náttúrustofu Noðurlands vestra, mun í sumar aðstoða veiðimenn, sem taka þátt í refarannsóknum og skila inn til krufningar refum veiddum í Skagafirði, en engar slíkar rannsóknir hafa verið gerðar hér síðustu ár. Krufning dýra veitir ýmsar upplýsingar um refina, aldur, frjósemi, holdafar og fl.