Fara í efni

Rakel Kemp ráðin í starf leiðtoga farsældar, fræðslu og ráðgjafar

10.04.2024
Rakel Kemp

Starf leiðtoga farsældar, fræðslu og ráðgjafar hjá Skagafirði var auglýst laust til umsóknar þann 20. mars sl. Alls bárust sex umsóknir um starfið. Rakel Kemp Guðnadóttir hefur verið ráðin í starfið.

Rakel er með BA og MA próf í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla íslands og hefur auk þess lokið diplómanámi í barnavernd frá sama skóla og er nú að ljúka námi í fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Rakel hefur frá árinu 2021 starfað sem uppeldis- og fjölskylduráðgjafi hjá Skagafirði. Áður starfaði hún sem sérfræðingur í barnavernd og félagsþjónustu og sem verkefnastjóri vegna móttöku flóttafólks hjá Fjarðabyggð.

Leiðtogi farsældar, fræðslu og ráðgjafar heldur utan um þá ráðgjöf sem sveitarfélagið veitir á fjölskyldusviði og ber ábyrgð á innleiðingu og veitingu samþættrar þjónustu í þágu íbúa. Hann ber jafnframt ábyrgð á félagslegri ráðgjöf, barnavernd og annarri sérfræðiþjónustu. Hluti af starfinu er samstarf við leik- og grunnskóla og skólaþróun. Leiðtogi ber ábyrgð á verkefnum sem undir hann heyra, skipulagningu verkefna, starfsmannamálum og umsjón með daglegri starfsemi. Samskipti, ráðgjöf og leiðsögn við ráðgjafa er hluti af starfinu, sem og fræðsla og upplýsingagjöf, innan og utan sveitarfélagsins. Leiðtogi heyrir undir sviðsstjóra fjölskyldusviðs og er með starfsstöð í ráðhúsi á Sauðárkróki.

Rakel mun hefja störf sem leiðtogi farsældar, fræðslu og ráðgjafar þann 1. maí 2024.