Fara í efni

Páskadagskráin í Skagafirði 2015

30.03.2015

Páskadagskrá skíði og sund 2015Það verður mikið um að vera í Skagafirði um páskana. M.a. verður opið á skíðasvæðinu í Tindastóli, skíðagöngumót í Fljótum, Sveitapiltsins draumur - frumsamið leikverk og létt dægurtónlist í Félagsheimilinu Höfðaborg, leikir í úrslitakeppninni í Dominos-deild karla í körfuknattleik, kvennatölt Norðurlands í reiðhöllinni Svaðastöðum, ýmsir tónlistarviðburðir á skemmtistöðum Sauðárkróks og þá verða sundlaugarnar opnar.

Skíðasvæðið í Tindastóli verður opið frá kl. 10-16 um páskana, dagana 2.-5. apríl. Nýtt og glæsilegt töfrateppi hefur verið tekið í notkun, Crazy roller verður í fullum gangi, brekkurnar eru frábærar og göngubrautirnar troðnar auk þess sem hægt verður að skíða út í buskann. Allar nánari upplýsingar er að finna á nýrri heimasíðu Skíðadeildar Tindastóls.

Fleiri skíðaviðburðir eru í boði. Ferðafélag Fljóta stendur fyrir skíðagöngumóti í Fljótum fyrir alla fjölskylduna á föstudaginn langa. Gengnar verða stuttar vegalengdir í öllum flokkum barna, unglinga og fullorðinna. Keppt verður með hefðbundinni aðferð. Skorað er á alla fjölskylduna, unga sem aldna, að taka nú fram skíðin og taka þátt í þessu sérstaka móti í gömlu höfuðbóli skíðaíþróttarinnar. Aðstoð og ráðleggingar verða veittar varðandi smurningu og áburð. Nánari upplýsingar má finna á facebook-síðu mótsins.

Frumsamda leikverkið Sveitapiltsins draumur verður sýnt í Félagsheimilinu Höfðaborg í tilefni af 40 ára vígsluafmæli hússins. Þar mun fjöldi skagfirskra listamanna koma fram, auk þess sem létt dægurtónlist verður flutt af Sönglagasveitinni ásamt söngvurum. Þessi frábæra skemmtun verður á skírdag, 2. apríl kl. 21. Miðapantanir eru í síma 893-0220 og miðaverð er kr. 3000,-

Mikið verður um að vera á skemmtistöðum Sauðárkróks. Má þar nefna að á Mælifelli verður alvöru Skímóball á föstudaginn langa. Tónleikar með Stebba og Eyfa verða á Kaffi Krók á laugardeginum. Stuðlagaball Gilz verður á Páskadag.

Fjöldi nýrra bíómynda verða sýndar í Króksbíó. Sjá nánar á facebook-síðu Króksbíós.

Kvennatölt Norðurlands verður haldið í reiðhöllinni Svaðastöðum á skírdag.

Þá verður spilað í úrslitakeppninni í Dominos-deild karla um páskana en hið frábæra lið Tindastóls er komið áfram í undanúrslit keppninnar.

Sundlaugarnar á Sauðárkróki, Hofsósi og í Varmahlíð verða opnar.