Óskað eftir tillögum að íslensku nafni Arctic Coast Way

Arctic Coast Way
Arctic Coast Way

Arctic Coast Way er nýtt og spennandi verkefni sem fyrst var kynnt til sögunnar í vetur, og á að draga athygli ferðamanna að strandlengjunni meðfram Norðurlandi. Verkefnið snýst um að búa til svokallaðan ferðamannaveg. Slíkir vegir eru þekktir í ferðaþjónustu á heimsvísu, sem verkfæri til að beina ferðamönnum eftir ákveðnum vegum á ákveðin svæði. Markaðsstofa Norðurlands heldur utan um verkefnið og er Christiane Stadler verkefnastjóri.

Heildarmarkmið verkefnisins Arctic Coast Way er að skapa aukin tækifæri fyrir ferðaþjónustufyrirtæki, með því að skapa vörumerki sem þau geta tengt sig við. Með því gætu þau orðið sýnilegri bæði á innlendum sem og erlendum mörkuðum. Ferðamannavegur er einnig verkfæri til að fá ferðamenn til að fara víðar um landið og á jaðarsvæðin svokölluðu, og til að fá þá til að dvelja lengur á Norðurlandi. Með tilkomu Arctic Coast Way ættu einnig að skapast tækifæri til að gera Norðurland að heilsársáfangastað, en það er langtímamarkmið.

Á næstu vikum eða mánuðum verða haldnir fundir og kannanir sendar út á þeim svæðum sem ferðamannavegurinn nær til. Markmiðið með þeim er að fá ábendingar um hvað þurfi að bæta í innviðum, hvaða upplifun ferðamenn geti sótt í og hvernig verkefnið gæti þróast áfram.

Til að byrja með er óskað eftir tillögum að íslensku nafni fyrir ferðamannaveginn, sem eins og áður hefur komið fram heitir á ensku  Arctic Coast Way . Hægt er að skila inn tillögum með því að fara inn á slóðina; nordurland.is/nafn.