Fara í efni

Nýtt listaverk á Sauðárkróki

12.08.2024

Eins og glöggir íbúar hafa eflaust tekið eftir hefur nýju listaverki verið komið fyrir á Sauðárkróki. Tilkoma listaverksins er sú að Markaðsstofa Norðurlands, ásamt Ferðamálasamtökum Norðurlands vestra fengu styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra fyrir því að setja upp listaverk á Norðurstrandarleið. Úr varð að gerð voru þrjú listaverk, eitt sem sett var niður á Sauðárkróki, eitt á Hvammstanga og eitt á Skagaströnd. Óskað var eftir innblæstri frá sveitarfélögunum um hvað verkin ættu að endurspegla og þótti hesturinn vel við hæfi í Skagafirði. Listafólkið DYVYNA Decor sá um hönnun og gerð listaverkanna en þau eru listamenn frá Úkraínu, búsett á Íslandi. 

Verkinu hefur verið komið fyrir í norðurenda bæjarins, við Eyrarveg, a.m.k. til að byrja með, en þar liggur m.a. leiðin um Norðurstrandarleið. Til greina kemur að setja verkið á hærri undirstöður og jafnvel finna því nýjan stað.

Sveitarfélagið Skagafjörður þakkar Markaðsstofu Norðurlands og Ferðamálasamtökum Norðurlands vestra fyrir frumkvæðið að verkefninu og þetta skemmtilega listaverk.