Fara í efni

Nýr deildarstjóri fornleifadeildar

03.04.2020
Brenda Prehal nýr deildarstjóri fornleifadeildar

Brenda Prehal hefur verið ráðin sem deildarstjóri fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga. Brenda er doktorsnemi við CUNY, The City University of New York, og er rannsóknarefni hennar heiðnir greftrunarsiðir á Íslandi. Brenda hefur reynslu af fornleifarannsóknum víðs vegar um landið frá árinu 2010, m.a. á Vestfjörðum, Mývatni og í Reykjavík, hún hefur einnig stundað fornleifarannsóknir í Noregi og á Skotlandi, auk þess sem hún hefur starfað við kennslu í fornleifafræði við CUNY háskólann í New York. 

Brenda hefur hlotið fjölda styrkja og námsstyrkja, má þar einna helst nefna styrk frá Stofnun Leifs Eiríkssonar árið 2015. Hún er meðlimur í NABO samtökunum, North Atlantic Biocultural Organizantion. Hún er með BA-gráðu í samskiptum, tvær mastersgráður frá CUNY, og er sem fyrr segir að ljúka doktorsgráðu frá sama skóla.  

Rannsóknarsvið hennar eru siðvenjur og trúarbrögð; útfara- og greftrunarsiðir; víkingaöldin og miðaldir; þverfaglegt samstarf; og íslenskar bókmenntir frá miðöldum. Þá finnst henni skemmtilegt að læra í íslensku, sem gengur vel. 

Brenda mun taka til starfa hjá safninu í júnímánuði og hlakkar til að flytja í Skagafjörðinn, ásamt eiginmanni sínum Ingva Erni Snorrasyni húsasmiði og 6 mánaða dóttur þeirra.