Fara í efni

Ný og endurskoðuð áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni

21.11.2017
Mynd: Gamla brúin yfir Vesturósinn

Sveitarstjórn hefur samþykkt nýja og endurskoðaða Stefnu og viðbragðsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar gegn einelti, ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni. Allt starfsfólk Sveitarfélagsins Skagafjarðar á rétt á að komið sé fram við það af virðingu og umhyggju. Sveitarfélagið Skagafjörður tekur skýra afstöðu gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi. Slík hegðun er ekki liðin á vinnustöðum sveitarfélagsins undir neinum kringumstæðum og getur leitt til áminningar og eftir atvikum starfsmissis. Meðvirkni starfsmanna í slíkum tilvikum er jafnframt óásættanleg.

Starfsfólk skal sýna umhyggju, virðingu og jákvæðni og hafa framsækni að leiðarljósi í daglegu starfi og sýna siðferðilega ábyrgð í samskiptum við samstarfsfólk. Allt starfsfólk skal taka þátt í að skapa jákvætt vinnuumhverfi sem stuðlar að vellíðan og er laust við einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi.

Markmið viðbragðsáætlunar er að koma í veg fyrir einelti, ofbeldi, kynferðislega og kynbundna áreitni á vinnustöðum sveitarfélagsins og að til staðar sé skýr áætlun um meðferð mála ef slíkt kemur upp.

Að stuðla að gagnkvæmri virðingu á vinnustöðum sveitarfélagsins svo sem með því að auka vitund og skilning á að einelti, ofbeldi, kynferðisleg og kynbundin áreitni er hegðun sem er óheimil á vinnustöðum sveitarfélagsins og er ekki liðin.

Að starfsfólk þekki boðleiðir og geti brugðist við með réttum hætti ásamt því að vera meðvitað um málsmeðferð slíkra mála.

Stefnuna og viðbragðsáætlunina í heild sinni má finna hér.