Fara í efni

Nokkur fjölgun á sýningu Söguseturs íslenska hestsins í sumar

18.09.2018

Á vefsíðu Söguseturs íslenska hestsins er sagt frá því að sumaropnun Söguseturs íslenska hestsins árið 2018 hafi lokið þann 31. ágúst. Gestir voru alls 1177, þar af 153 börn. Þeir sem greiddu aðgangseyri voru þannig 1024, sem er nokkur fjölgun frá fyrra ári. Mjög athyglisvert er hversu víða að gestir setursins í sumar komu, eða frá 29 þjóðlöndum auk Íslands, að vísu einungis örfáir frá sumum þeirra. Rétt eins og fyrri ár eru þýskir gestir í sérflokki hvað fjölda varðar, en þeir voru 392, eða rétt rúm 38%. Íslendingar voru í öðru sæti með 138 gesti og Bandaríkjamenn í því þriðja með 69 gesti. Næstir komu svo Hollendingar (61 gestur), Svisslendingar (60 gestir) og Svíar (54 gestir).

Þá segir einnig að hvað annað starf á Sögusetrinu varðar, var sumarið, sem nú er sem óðast að líða, farsælt. Sögusetur íslenska hestsins stóð þannig fyrir sýningunni Íslenski hesturinn á fullveldisöld á landsmóti hestamanna, sem fram fór á félagssvæði Hestamannfélagsins Fáks í Reykjavík, dagana 1. til 8. júlí. Sýningin var hluti af dagskrá 100 ára fullveldis Íslands 1918 - 2018 og var styrkt af afmælissjóði þess. RML var faglegur samstarfsaðili SÍH við samantekt sýningarinnar sem styrkt var af Stofnverndarsjóði íslenska hestakynsins, Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra, Sveitarfélaginu Skagafirði og mennta- og menningarmálaráðuneytinu, auk afmælisnefndar fullveldisafmælisins eins og fyrr segir. Sýningin mun fljótlega verða aðgengileg hér á heimasíðunni, auk þess sem hún verður sett upp í Skagafirði og mun það hvoru tveggja verða kynnt sérstaklega er þar að kemur. Nú í haust og á næsta ári liggur ýmislegt fleira fyrir er varðar áframhaldandi uppbyggingar- og rannsóknastarf hjá Sögusetri íslenska hestsins, sem nánar mun kynnt er þar að kemur.