Fara í efni

Njótum vetrarfrísins saman í okkar heimabyggð!

14.10.2020

Við getum sannarlega verið stolt af þeirri samstöðu sem myndast hefur í okkar samfélagi undanfarnar vikur í því ástandi sem við búum öll við vegna Covid – 19.   Nú í aðdraganda vetrarfrís grunnskólanna er mikilvægt að við stöndum þétt saman og fylgjum tilmælum aðgerðastjórnar almannavarna á Norðurlandi vestra: 

“Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra vill af gefnu tilefni, ítreka tilmæli til íbúa svæðisins um að takmarka ferðalög til höfuðborgarsvæðisins eins og kostur er sem og ferðalög á önnur svæði sem talin eru útsett fyrir smitum. Ferðir takmarkist við brýnustu nauðsyn !!” 

“Aðgerðastjórn biðlar til almennings að fylgja þessu eftir af fullri alvöru og sýna samfélagslega ábyrgð...”  

“Sýnum skynsemi næstu daga og tökumst á við verkefnið með samstöðu að vopni því aðeins þannig náum við árangri.” 

Oftar en ekki nýta fjölskyldur haustfrí grunnskólanna í að fara, gera og vera saman. Þetta getum við áfram gert í okkar nærumhverfi og skipulagt samveru heima fyrir með okkar nánustu. Upplagt er að nýta tímann í að efla tengsl foreldra og barna með samveru þar sem góð samskipti hafa sýnt sig sem ein öflugasta forvörnin er kemur að líðan barnanna okkar og velferð. 

Tökum myndir og deilum #vetrarfriiskagafirdi2020 

  • Göngum í náttúrunni 
  • Bökum og skreytum  
  • Eldum saman 
  • Tökum fram borðspilin og púslin 
  • Förum í sund  
  • Förum í frisbígolf  
  • Förum í fjöruferð 
  • Förum í fótbolta/körfubolta 
  • Hoppum á ærslabelgjum  

Hús frítímans verður opið samkvæmt auglýstri dagskrá á fimmtudag og föstudag. Frístundastrætó ekur á föstudag og þarf að vera búið að skrá í hann fyrir kl. 16 á fimmtudag.  

Höfum í huga að við erum öll almannavarnir 

Fjölskyldusvið Sveitarfélagsins Skagafjarðar