Fara í efni

Nína Ýr og Steinunn Anna nýir ráðgjafar hjá Skagafirði

04.06.2024
Nína Ýr og Steinunn Anna

Þær Nína Ýr Níelsen og Steinunn Anna Helgadóttir hafa verið ráðnar inn sem ráðgjafar á fjölskyldusviði Skagafjarðar en stöðurnar voru auglýstar í maí sl. Munu þær báðar hefja störf á haustmánuðum.

Nína Ýr Nielsen hefur verið ráðin í starf ráðgjafa á fjölskyldusviði. Nína hefur margra ára reynslu af störfum innan grunnskóla sem kennari, verkefnastjóri og stjórnandi. Í verkefnum sínum í skólaumhverfinu hefur Nína unnið í samþættri þjónustu og teymisvinnu með ýmsum fagaðilum og þjónustuveitendum, þar á meðal barnavernd, félags- og skólaþjónustu ásamt því að veita ráðgjöf til foreldra og starfsfólks. Nína er með B.Ed og Med. í kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands.

Steinunn Anna Helgadóttir hefur verið ráðin í starf ráðgjafarþroskaþjálfa á fjölskyldusviði. Steinunn hefur víðtæka reynslu af vinnu með fötluðu fólki en hún er þroskaþjálfi að mennt. Í verkefnum sínum sem þroskaþjálfi og áður félagsliði hefur Steinunn þjónustað fötluð börn og fatlaða einstaklinga með miklar þjónustuþarfir. Þá hefur Steinunn góða reynslu af þverfaglegri teymisvinnu og samræmingu þjónustu þvert á stofnanir ásamt góðri þekkingu á lögum um réttindi fatlaðs fólks.