Fara í efni

Myndasyrpa frá haustverkum í Skagafirði

06.11.2020
Framkvæmdir við Sauðárkrókshöfn

Ýmsar framkvæmdir hafa verið í gangi í Skagafirði á haustmánuðum og vel við hæfi að birta nokkrar myndir af því tilefni.

Unnið er m.a. við gerð sjóvarnar og lengingu sandfangara við Sauðárkrókshöfn. Um er að ræða gerð sjóvarnar meðfram Þverárfjallsvegi og Skarðseyri á um 450 metra kafla og lengingu sandfangara um 30 metra. Sjóvörnin verður hækkuð um u.þ.b 1 meter þannig að hæð hennar verði +5,0 m í hæðarkerfi hafnarinnar. Búið er að bjóða út og semja um vinnu við grjótgarð við Hofsóshöfn og er áætlað að vinna hefjist þar með vorinu.

Vinna stendur yfir við að leggja nýja stofnæð hitaveitu meðfram Strandveginum á Sauðárkróki á vegum Skagafjarðarveitna ásamt lögn á rafstreng á vegum Rarik.

Dælustöð fyrir nýja hitaveitu í Hegranesinu rís, en hún er staðsett við hesthúsakverfið á Sauðárkróki.

Framkvæmdir við viðbyggingu við Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi ganga vel og er húsið farið að taka á sig góða mynd. Húsið mun gefa leikskólanum Barnaborg nýtt heimili.

Malbikunarvinna hefur verið í gangi víða. Mikið hefur verið unnið við hreinsun og malbikun við Sauðárkrókshöfn á síðastliðnum vikum og er malbikunarvinnu þar nú lokið.

Í Varmahlíð var malbikað á Skólavegi og Birkimel og bílastæðið við sundlaugina og íþróttahúsið hefur verið malbikað. Þá hafa gangstéttir verið steyptar við nýjustu göturnar á Sauðárkróki og gengið frá þökulagningu.

Aðgengi við Hús frítímans hefur verið bætt sem mun auðvelda hjólastólaaðgengi til muna, en mjög margir nýta sér aðstöðu Húss frítímans í viku hverri.

Ný og glæsileg sorpmóttaka verður opnuð í Varmahlíð á næstunni og stendur nú yfir kosning á nafni sorpmóttökunnar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Hér má sjá myndir frá framkvæmdum:

Lenging sandfangara við Sauðákrókshöfn

 

Malbikunarvinna á hafnarsvæðinu

 

Stofnæð hitaveitu meðfram Strandveginum á Sauðárkróki lögð ásamt rafstreng

 

Aðgengi við Hús frítímans hefur verið lagfært

 

Gangstéttir við nýjar götur hafa verið steyptar og þökur verið lagðar

 

 Dælustöð fyrir nýja hitaveitu í Hegranesinu rís

 

Viðbygging við Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi gengur vel

 

Malbikunarvinna í Varmahlíð

 

Ný sorpmóttaka í Varmahlíð verður opnuð á næstunni