Fara í efni

Minnisplatti um Vesturfarana afhjúpaður á Sauðárkróki

12.09.2023
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri ásamt Sunnu Olafsson Furstenau og Cathy Josephson frá Icelandic Roots.

Föstudaginn 8. september sl. fengum við góða heimsókn í Skagafjörð frá samtökunum Icelandic Roots þar sem meðlimir samtakanna afhentu minnisplatta um forfeður sína sem fóru vestur um höf frá Sauðárkróki í kringum aldamótin 1900.

Þessa dagana ferðast sjálfboðaliðar Icelandic Roots frá Norður Ameríku um Ísland til að fagna 10 ára afmæli samtakanna. Þeir heimsækja mikilvæga sögustaði, hitta félaga sem búsettir eru á Íslandi og setja upp minnisvarða um fólk sem flutti frá nokkrum höfnum á Norður- og Austurlandi.

Minnisplattin stendur á Nöfunum fyrir ofan Sauðárkrók á góðu útsýnissvæði sunnan við kirkjugarðinn. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri, afhjúpaði minnisplattann og þakkaði samtökunum fyrir rausnarlega gjöf. Í kjölfar athafnarinnar buðu meðlimir Pilsaþyts gestum í íslenskt kaffiboð í Safnaðarheimilinu.

Icelandic Roots samtökin voru stofnuð árið 2013 en samtökin halda meðal annars utan um gagnagrunn Vestur-Íslendinga www.icelandicroots.com.