Fara í efni

Mikil gróska og jákvæðni í skólamálum í Skagafirði

21.11.2018
Frá Vinadeginum

Fyrir utan hefðbundið skólastarf þá hefur æði margt verið á döfinni hér í okkar skólasamfélagi  síðustu vikur.  Í lok október var prufukeyrð ný matsaðferð í skólastarfi sem ber heitið Skólaspegill- staðfest sjálfsmat, aðferðin er skosk að uppruna.  Aðferðin er umbóta – og samstarfsmiðuð og markmiðið með aðferðinni er, annars vegar að uppfylla lagaskyldur varðandi ytra mat skóla á sveitarfélagsstigi og hins vegar að auka gæði skólastarfs innan sveitarfélagsins. Skólar í Skagafirði hafa iðkað innra mat í skólastarfi með skoskum aðferðum og byggir Skólaspegilinn á þeim grunni. Það er Helga Harðardóttir, kennsluráðgjafi og verkefnastjóri hjá fjölskyldusviði Skagafjarðar sem hefur umsjón með mati á skólastarfi.

Vinadagurinn var haldinn að vanda og vinátta og gleði við völd. Á Vinadeginum koma öll grunnskólabörn í Skagafirði saman ásamt því að skólahópsbörn leikskólanna hittast og nemendur í 10. bekk grunnskólanna heimsækja nemendur í FNV. Markmið dagsins er fyrst og fremst að hittast og eiga góðan og  glaðan dag saman. Kolbrún Marvía Passaro, verkefnastjóri frístunda er nýr verkefnastjóri Vinaverkefnisins og mun stýra verkefninu í samstarfi við strafsmenn leik, – grunn, – og framhaldsskóla ásamt fulltrúum foreldra.

Allir starfsmenn grunnskólanna í Skagafirði tóku þátt í starfsdegi um upplýsingatækni í Árskóla. Starfsdagurinn er haldinn samhliða UTís ráðstefnunni sem haldin var hér á Sauðárkróki í þriðja sinn. En bæði á starfsdeginum og á ráðstefnunni sjálfri héldu sex erlendir fyrirlesarar erindi um tækni í skólastarfi sem bæði skagfirskt skólafólk og skólafólk víðs vegar af landinu naut góðs af. Ingvi Hrannar Ómarsson er skipuleggjandi beggja viðburða og að þessu sinni voru 126 sem að tóku þátt í ráðstefnunni og annar eins fjöldi var á biðlista. Segja má að fræðsla af þessu tagi um tækniþróun hér á landi sé einstök.

Menntamálastofnun veitti Vinaliðaverkefninu  hvatningarverðlaun á degi gegn einelti þann 8. nóv. sl. Í dag eru tæplega 50 þátttökuskólar í verkefninu og um 1400 börn sem starfa sem vinaliðar á hverju hálfs árs tímabili. Verkefnið hefur það að markmiði að draga úr einelti og auka vellíðan nemenda í frímínútum og hvetur til góðra samskipta og aukinnar hreyfingar í skólanum.  Guðjón Örn Jóhannsson er verkefnastjóri Vinaliðaverkefnisins en hann hefur stýrt verkefninu undanfarin ár í samstarfi við verktaka á höfuðborgarsvæðinu.

Árshátíð miðstigs í Árskóla var haldin hátíðleg með fjölbreyttum og skemmtilegum atriðum árganganna í Bifröst. Nemendur í 5. – 7. bekk stigu á stokk og fóru sannarlega á kostum í leik, söng og dansi. Skemmtiatriðin sem eru á dagskrá árshátíða skólanna eru gjarnan samin af umsjónarkennurum nemenda í samstarfi við nemendurna sjálfa.

Haustskemmtun Grunnskólans austan Vatna á Hólum. Skemmtunin er samvinnuverkefni við leikskólann Tröllaborg á Hólum. Allir nemendur grunnskólans taka þátt í sýningunni ásamt 3 – 5 ára börnum leikskólans. Þema sýningarinnar að þessu sinni var fullveldi Íslands en öllu jafna tengist þemað degi íslenskrar tungu. Nemendur leik– og grunnskólans stóðu sig afar vel,  Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir stýrði sýningunni.

Árshátíð yngri barna í Varmahlíðarskóla. Nemendur í 1.- 5. bekk settu á svið glæsilegt leikrit sem byggt er á ævintýrum Thorbjørns Egner. Valdir bútar úr ævintýrum norska skáldsins/höfundarins  voru settir saman í eitt glæsilegt stykki sem fékk nafnið Ævintýragrauturinn. Allir nemendur yngri bekkja tóku þátt í sýningunni og eldri nemendur skólans sáum um tæknimál, förðun o.fl.  Umsjónarkennarar og nemendur eru höfundar Ævintýragrautsins.

Fullveldishátíð Varmahlíðarskóla og Grunnskólans austan Vatna. Nemendur og starfsmenn skólanna tveggja héldu hátíðlega upp á 100 ára fullveldis afmæli Íslands með opnu húsi í Varmahlíðarskóla. Á hátíðinni var leitast við að svara ýmsum spurningum um merkingu fullveldis, frelsis og lýðræðis á skemmtilegan og fjölbreyttan hátt. Íris Olga Lúðvíksdóttir, Trostan Agnarsson og Jóhanna Traustadóttir voru hugmyndasmiðir hátíðarinnar í samvinnu við aðra kennara og starfsfólk skólanna.

Fræðsluvefur um náttúru Skagafjarðar var formlega opnaður sl. föstudag, natturaskagafjardar.is. Höfundur vefsins er Sólrún Harðardóttir og útgefandi er Háskólinn á Hólum. Fræðsluvefurinn er ætlaður krökkum, unglingum og áhugasömum almenningi og fjallar um umhverfið og náttúruna í Skagafirði. Það er mikið fagnaðarefni fyrir okkar skólasamfélag að fá slíkt verkfæri í hendur og óskum við Sólrúnu innilega til hamingju með glæsilegt framtak.