Fara í efni

Mikil eftirspurn eftir íbúðum í Skagafirði

11.10.2016
Nýbygging í Kleifatúni

Um þessar mundir er mikil eftirspurn eftir íbúðum og lóðum undir nýbyggingar í Skagafirði. Er það í takt við mikla fjölgun íbúa í Sveitarfélaginu Skagafirði á liðnum mánuðum en undanfarna 11 mánuði hefur íbúum þess fjölgað um 84.

Skortur á íbúðahúsnæði hefur ýtt undir nýbyggingar en um þessar mundir eru á fjórða tug íbúða í byggingu eða undirbúningi á Sauðárkróki. Eru framkvæmdir hafnar við þrjú einbýlishús í Kleifatúni, en auk þess hafa bæði einstaklingar og verktakar eða félagasamtök sótt um lóðir. Framundan eru til að mynda framkvæmdir við Gamla barnaskólann á Sauðárkróki sem á að breyta í íbúðir, auk þess sem Búhöldar, húsnæðissamvinnufélag (svf)  er að undirbúa byggingu nokkurra íbúða.

Minnt er á að byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur samþykkt tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda af byggingum íbúðarhúsnæðis af hálfu einstaklinga og verktaka á lóðum við þegar tilbúnar götur á Sauðárkróki, Hofsósi og í Varmahlíð. Gildir sú niðurfelling til 31. desember 2017.