Fara í efni

Menningin blómstrar í Sæluvikunni

30.04.2019
Frá Kirkjutorgi á Sauðárkróki síðasta sumar

Sæluvika Skagfirðinga hófst formlega síðasta sunnudag og hefur hver menningarviðburðurinn á fætur öðrum litið dagsins ljós. Opnun sýninga, frumsýning á leikriti, opin hús hér og þar og margt framundan.

Í dag er leikhópurinn Lotta á ferðinni milli skólanna og skemmtir elstu nemendum leikskólanna og þeim yngstu í grunnskólunum og nemendur Tónadans bjóða íbúum dvalarheimilins á Sauðárhæðum á tónleika.

Við viljum minna á íbúafundinn um mótun menntastefnu Skagafjarðar sem verður í sal FNV í dag kl 17.

Auk sýninganna sem verða opnar flesta dagana er vatnsjóga í boði í sundlauginni á Hólum í kvöld, leikritið Fylgd verður sýnt í Bifröst, kvæðamannafélagið Gná verður með kvæðakvöld í Melsgili og hátíð verður á Mælifelli í tilefni útgáfu bókar með ljóðum og stökum eftir Erling Örn Pétursson, Ég sigli á logum ljósum.

Frídagur verkamanna er á morgun 1. maí og verður hátíðarsamkoma í Menningarhúsinu Miðgarði af því tilefni kl 13. Sýning um æskuna og hestinn verður í reiðhöllinni Svaðastöðum, opin vinnustofa hjá Aðalsteini múrarameistara í Víðihlíð 35 og opnunarhátíð Villunnar á Hólavegi 16. Búið er að breyta húsinu og eru þar nú starfandi nokkur fyrirtæki sem bjóða gesti velkomna að kynna sér starfsemina.

Heimildarmynd um Heimi í Vesturheimi verður í Króksbíói, hátæknisýningin Heimur norðurljósanna í Puffin and friend og leiksýningin Fylgd í Bifröst.

Það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi í Sæluvikudagskránni.