María Neves hefur verið ráðin í starf verkefnastjóra
María Neves hefur verið ráðin í starf verkefnastjóra hjá sveitarfélaginu Skagafirði. Í starfinu felst að vinna að skilgreindum verkefnum fyrir atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd með það að markmiði að þróa áfram ákveðin verkefni sem eru til þess fallin að stuðla að uppbyggingu, nýsköpun og framþróun í sveitarfélaginu.
María Neves lauk diplómaprófi í viðburðarstjórnun frá Hólaskóla árið 2016. En einnig lauk hún BA prófi í miðlun og almannatengslum frá Háskólanum á Bifröst árið 2018 og MMM prófi í markaðsfræði frá sama háskóla árið 2021. Því til viðbótar er Maria í námi og áætlar að ljúka diplómaprófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands ásamt MLM prófi í forystu og stjórnun með áherslu á verkefnastjórnun frá Háskólanum á Bifröst vorið 2025.
María starfar í dag sem verkefnastjóri stafrænnar þróunar hjá Akureyrarbæ en þar áður starfaði hún hjá Borgarbyggð í 5 ár sem samskipta- og þjónustustjóri þar sem hún sá m.a. um almannatengsl, kynningar- og markaðsmál, innri og ytri upplýsingamál, fjölmiðlatengsl, viðburðastjórnun, gæðastjórnun og verkferla, fundarritun, vef- og samfélagsmiðlastjórnun, fjárhagsáætlunargerð, stefnumótun, ráðgjöf og ýmsa aðra verkefnastjórnun.
María mun hefja störf hjá sveitarfélaginu um miðjan apríl og á sama tíma og við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa þökkum við Sigfúsi Ólafi Guðmundssyni og Hebu Guðmundsdóttur kærlega fyrir samstarfið undanfarin ár og óskum þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi.