Lokanir skóla og íþróttamannvirkja vegna hertra sóttvarnaaðgerða

Í ljósi hertra sóttvarnaaðgerða sem taka gildi á miðnætti 25. mars loka grunnskólar og íþróttamannvirki í Skagafirði.

Skólahald

Allt skólastarf í grunnskólum Skagafjarðar fellur niður fram að páskaleyfi.  Allt starf Tónlistarskólans fellur einnig niður sem og frístund að loknum skóla. Hús frítímans verður einnig lokað.

Unnið verður að reglum um fyrirkomulag skólahalds að loknu páskafríi á næstu dögum og foreldrar og nemendur upplýstir eins fljótt og unnt er.

Leikskólar verða opnir sem fyrr þar sem börn fædd 2015 og síðar eru undanskilin hertum aðgerðum. Þess ber að geta að starfsmenn sem og foreldrar leikskólabarna eru ekki undanskildir hertum sóttvarnaraðgerðum og því er lögð rík áhersla á að foreldrar staldri ekki við í fataklefum í upphafi og lok dags og virði fjöldatakmarkanir og grímuskyldu í hvívetna.

Íþróttastarf

Íþróttahús og sundlaugar sveitarfélagsins, loka frá 25. mars og varir lokunin á meðan á samkomubanni stendur eða til og með 14. apríl.

Samkomubann kemur þó ekki í veg fyrir að íbúar geti stundað hreyfingu svo lengi sem hertar reglur um sóttvarnir eru virtar. 

Tilvalin svæði til útivistar:

- Sparkvellir á Hofsósi, á Hólum og í Varmahlíð sem og gervigrasvöllurinn á Sauðárkróki.
- Hlaupabrautin umhverfis íþróttavöllinn á Sauðárkróki.

Þess utan er upplagt að fara í gönguferðir á opnum svæðum sem og að nýta sér sandana sem er skemmtilegur leikvöllur fyrir fólk á öllum aldri.

Íbúum er einnig bent á síðu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands þar sem finna má tillögur að hreyfingu: http://isi.is/almenningsithrottir/island-a-idi/