Ljós verða tendruð á jólatrénu á Kirkjutorgi á morgun

Það verður hátíðarstemning á Sauðárkróki á morgun, laugardag, þegar jólaljósin verða tendruð á jólatrénu á Kirkjutorgi við hátíðlega athöfn. Einar Einarsson mun flytja hátíðarávarp, Stjörnukór og Barna- og unglingakór Tónadans munu sjá um söng, Leikfélag Sauðárkróks mun skemmta gestum og dansað verður í kringum jólatréð. Þá hefur einnig heyrst að jólasveinarnir og Grýla og Leppalúði séu á ferðinni. Athöfnin hefst kl. 15:30.

Við hvetjum alla Skagfirðinga og gesti til þess að fjölmenna snemma í bæinn og njóta aðventustemningarinnar í gamla bænum. Jólahlaðborð Rótarýklúbbs Sauðárkróks verður í íþróttahúsinu, verslanir og veitingastaðir verða opnir, jólamarkaðir í Safnaðarheimilinu og Aðalgötu 20, opin vinnustofa í Gúttó og sannkölluð jólastemning á jólatorginu milli Sauðárkróksbakarís og Safnaðarheimilisins. Fullkomið tækifæri til þess að eiga góða stund saman!