Ljós tendruð á jólatrénu á Kirkjutorgi

Pálmi Gunnarsson og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir sungu hugljúf jólalög
Pálmi Gunnarsson og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir sungu hugljúf jólalög

Það var ákaflega skemmtileg stund í dag þegar ljós voru tendruð á jólatrénu á Kirkjutorgi á Sauðárkróki. Dagskráin byrjaði raunar í morgun þegar fjölmörg fyrirtæki og félagasamtök stóðu fyrir fjölbreyttum viðburðum. Má þar nefna jólahlaðborð Rótarý og afmæliskaffi á vegum sveitarfélagsins í tilefni þess að 70 ár eru liðin frá því að Sauðárkrókur fékk kaupstaðarréttindi.

Á Kirkjutorgi var svo boðið upp á sannkallaða hátíðardagskrá. Þar söng barnakór Varmahlíðarskóla nokkur jólalög, Lydía Einarsdóttir söng einsöng, Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðarráðs flutti hátíðarávarp, hinn landsþekkti tónlistarmaður Pálmi Gunnarsson söng ásamt Sigurlaugu Vordísi Eysteinsdóttur við undirleik Stefáns R. Gíslasonar og hljómsveitar, auk þess sem nokkrir jólasveinar þjófstörtuðu og kíktu í Krókinn. Síðast en ekki síst tendruðu tveir nemendur úr 2. bekk Varmahlíðarskóla ljósin á trénu sem að þessu sinni var alskagfirskt sitkagreni úr Reykjarhólsskógi við Varmahlíð.

Á morgun er fyrsti sunnudagur í aðventu en orðið aðventa er dregið af latnesku orðunum Adventus Domini, sem þýða „koma Drottins“ og hefst hún á 4. sunnudegi fyrir jóladag.