Lausar lóðir til leigu á Nöfum á Sauðárkróki
Byggðarráð ákvað á 148. fundi sínum þann 27. maí sl. að auglýsa til leigu þær lóðir á Nöfum sem hefur verið skilað inn. Lóðirnar sem um ræðir eru lóðir númer 13 (L143974), 31 (L143969), 36 (L218115) og 38 (L143963) og eru lausar strax. Ræktunarlandið er selt á leigu til ræktunar og slægna og til sauðfjárbeitar og beitar fyrir allt að 5 brúkunarhross. Leigutími er til og með 28. desember 2034
Leigutaki skal greiða leigusala ársleigu af landinu í samræmi við gildandi gjaldskrá sveitarfélagsins hverju sinni skv. ákvörðun sveitarstjórnar (18.000 kr. ha við undirritun samnings). Leigan greiðist við álagningu fasteignagjalda ár hvert og skal hún endurskoðast árlega.
Umsækjendur skulu tilgreina í umsókn hvers konar not þeir hugsa sér að hafa af landinu og hvort þeir hafi leyfi til búfjárhalds í þéttbýli.
Umsóknir skal senda í tölvupósti á netfangið skagafjordur@skagafjordur.is fyrir lok þriðjudagsins 10. júní næstkomandi.