Fara í efni

Laugavegur í Varmahlíð

26.08.2021
Úr fundargerðarbók hreppsnefndar Seyluhrepps árið 1980

Þann 2. júlí s.l. var birt aðsend grein í Feyki frá Rúnari Birgi Gíslasyni þar sem hann skrifaði um að götuheitið Laugavegur í Varmahlíð væri rangt og Laugarvegur væri hið rétta. Skoraði Rúnar Birgir á Sveitarfélagið Skagafjörð að leiðrétta það þar sem við ætti s.s. hjá fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og víðar. Einnig benti hann á að á heimasíðu sveitarfélagsins mætti sjá þau spor að gatan væri ekki alltaf réttnefnd.

Þessi þarfa ábending kallaði á það að kafa ofan í fundargerðarbækur Seyluhrepps til að ganga fyllilega úr skugga um hvert rétt heiti götunnar væri. Eftir að starfsmenn Héraðsskjalasafns Skagfirðinga höfðu flett fundargerðarbókum byggingarnefndar og hreppsnefndar Seyluhrepps, sem varðveittar eru á safninu, komu eftirfarandi upplýsingar í ljós:

Í fundargerð byggingarnefndar þann 13. maí 1980 var tekið fyrir mál vegna götunafna í Varmahlíðarhverfi. Þar er bókað að gata frá hóteli að Úthlíð heiti Grundargata - frá suðri til norðurs. Líklega er þar fyrsta tillaga að nafni á götuna sem ber nú nafnið Laugavegur. Í fundargerðarbók hreppsnefndar frá 14. maí 1980 er aftur á móti bókun þar sem ákveðið hefur verið að falla frá ákvörðun byggingarnefndar um að nefna götuna Grundargata og er samþykkt í hreppsnefnd að nefna hana Laugavegur.

Í fundargerð byggingarnefndar frá 27. nóvember 1984 er tekið fyrir erindið: Bréf frá íbúum Laugavegs, og er það fyrsta bókun sem er að finna með nafninu Laugavegur. En í öllum fundargerðum umræddar byggingarnefndar sem eftir koma á árunum 1984-1990 er alltaf talað um lóðir og byggingar við Laugaveg. Aldrei kemur fram nafnið Laugarvegur.

Eins má vitna til skipulagsuppdráttar sem var staðfestur af hreppsnefnd Seyluhrepps 11.03.1997, en þar eru götunöfn skráð á kortið og gatan skrifuð sem Laugavegur.

Laugavegur er því heitið á götunni og sveitarfélagið er búið að panta nýtt götuskilti til merkingar hennar. Rúnari Birgi er þakkað fyrir að vekja máls á þessu svo hægt væri að eyða öllum vafa um nafngift götunnar.

Margeir Friðriksson,
sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs