Laugardagsopnun hefst á bókasafninu á Sauðárkróki
Í febrúar verður tekin upp sú nýbreytni að bókasafnið á Sauðárkróki verður opið á laugardögum frá kl. 10:30-14:00, yfir vetrartímann. Fyrsta laugardagsopnunin verður því 7. febrúar nk. Sama dag stendur til að bjóða upp á brúðusmiðju.
Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd ákvað sl. haust að taka upp laugardagsopnun á safninu, í kjölfar óska um slíkt, m.a. í niðurstöðum þjónustukönnunar sem gerð var í árslok 2024. Er þetta hrein viðbót við þjónustu safnsins, því opnunartími á virkum dögum helst óbreyttur, þ.e. frá kl. 11:00-18:00 alla virka daga. Opnunartími á Hofsósi mun hins vegar færast á milli vikudaga og verður frá og með næstu viku á fimmtudögum frá kl. 15:00-18:00.
Fyrsta laugardagsopnunin verður sem fyrr segir 7. febrúar næstkomandi. Þann dag stendur einnig til að bjóða upp á brúðusmiðju á safninu. Er það Greta Clogh frá Hvammstanga sem kemur og leiðbeinir. Allt efni verður til staðar en nauðsynlegt er að skrá sig gegnum netfangið bokasafn@skagafjordur.is. Börn 7 ára og yngri þurfa að koma í fylgd með fullorðnum.
Það er von sveitarfélagsins að þessi góða viðbót við þjónustu safnsins mælist vel fyrir og að bæði fastagestir og nýir gestir nýti sér hana.