Fara í efni

Laufskálaréttarhelgin framundan

26.09.2024

Drottning allra stóðrétta, Laufskálarétt, fer fram um helgina þar sem skagfirsk skemmtun, hestar, gleði, söngur og glaðlyndir gestir verða í fyrirrúmi alla helgina.

Gleðin hefst strax á föstudaginn þar sem heimafólk á Nautabúi í Hjaltadal og Varmalandi opna dyrnar fyrir gestum og bjóða þeim að koma við og skoða búin. Sölusýning Hrossaræktarsambands Skagfirðinga verður í Reiðhöllinni Svaðastöðum og á föstudagskvöldið fer fram hin eina sanna Laufskálaréttarsýning.

Réttir hefjast kl. 13 á laugardaginn en einnig er öllum er heimilt að taka þátt í stóðrekstinum. Lagt verður af stað frá áningarhólfi hestamanna við Sleitustaði og frá Laufskálarétt ekki seinna en kl. 10:30. Stóðið er rekið af stað úr Kolbeinsdal upp úr kl. 11:30 frá afréttarhliðinu við Unastaði.

Veislunni lýkur svo á laugardagskvöldið með Laufskálaréttarballi í Reiðhöllinni þar sem fram koma Herra hnetusmjör, Hljómsveitin Von, Prettyboitjokkó, Saint Pete og Á móti sól!