Laufskálarétt um helgina

Frá Laufskálarétt í fyrra. Mynd LKS
Frá Laufskálarétt í fyrra. Mynd LKS

Réttað verður á laugardaginn í Laufskálarétt í Hjaltadal og af því tilefni verður mikið um að vera um allt héraðið. Margir gestir sækja Skagafjörðinn heim þessa helgi til að sýna sig og sjá aðra og njóta réttarstemmingarinnar. Á föstudagskvöldinu verður stórsýning og skagfirsk gleði í reiðhöllinni Svaðastöðum þar sem mæta m.a. fjórir heimsmeistarar og heimaræktaða hryssan Eldborg ásamt Stefáni Birgi Stefánssyni og einnig taka Hreppamenn lagið. Eftir sýninguna er hægt að bergða sér á ball með Rúnari Eff á Mælifelli, Sigvalda, Alex Má og Jóni Gesti í Miðgarði eða hlusta á Bergmál á Micro bar. 

Á laugardeginum er hrossastóðið rekið til réttar uppúr kl 11:30 og hefjast réttarstörfin kl 13. Kynning verður Landsmótssvæðinu á Hólum milli kl 15 og 17 með lifandi tónlist og léttum veitingum. Veitingastaðurinn Undir Byrðunni á Hólum verður opinn alla helgina fyrir svanga réttargesti og Samgöngusafnið í Stóragerði verður með köku- og smáréttahlaðborð frá kl 15-19. Íslensk kjötsúpa verður á boðstólum í KS Varmahlíð alla helgina, veitingastaðurinn opinn á Hótel Varmahlíð og Laufskálaréttartilboð á Hard wok cafe á Króknum svo eitthvað sé nefnt.

Það er alltaf notalegt að fara í sundlaugarnar og er sundlaugin á Hofsósi opin frá 11 til 17 bæði laugardag og sunnudag, laugin á Króknum milli kl 10 og 16 og í Varmahlíð 10 til 15.

Laufskálaréttarballið verður í reiðhöllinni Svaðastöðum og er það hljómsveitin Von ásamt Eyþóri Inga, Magna Ásgeirs og Ölmu Rut sem mun halda uppi stuðinu fram eftir nóttu. Á Hótel Varmahlíð verður það hljómsveitin Einnogsjötíu sem sér um fjörið. 

Það ætti því engum að leiðast í Skagafirðinum um helgina en nánari dagskrá má finna hér.