Fara í efni

Laufey Kristín Skúladóttir ráðin í starf verkefnastjóra

21.08.2014
Laufey Kristín Skúladóttir

Laufey Kristín Skúladóttir ráðin í starf verkefnastjóra 

Laufey Kristín  Skúladóttir hefur verið ráðin í starf verkefnastjóra í atvinnu-, menningar- og kynningarmálum hjá sveitarfélaginu. Starfið var auglýst laust til umsóknar þann 21. júlí 2014 og rann umsóknarfrestur út 6. ágúst sl. Alls voru 9 umsækjendur en þar af drógu 2 umsókn sína til baka.

Laufey Kristín Skúladóttir lauk Cand. Merc. (MSc.) í stjórnun nýsköpunar og viðskiptaþróun árið 2013. Það er masterspróf af línunni Management of Innovation and Buisness Development frá Copenhagen Business School í Danmörku.  Námið var afar fjölbreytt m.a. með áfanga í fjármálum, verkefnastjórnun og vöruþróun, stefnumótun og markaðsþróun. Í valáföngunum tók hún áfanga með áherslu á skapandi greinar og félagslega ábyrgð fyrirtækja.  Lokaritgerð hennar fjallaði um íslenska kvenfrumkvöðla sem stofnuðu fyrirtæki eftir efnahagshrunið 2008.  Einnig lauk hún BA prófi árið 2009 í hagfræði með heimspeki sem aukafag frá HÍ.  Lokaritgerðin fjallaði um félagslega ábyrgð fyrirtækja (CSR). 

Laufey var ráðin tímabundið hjá Sveitarfélaginu Skagafirði í sumar sem verkefnastjóri.  Hún hefur verið framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar Gærunnar síðastliðin 2 ár og var tímabundin ráðin sem atvinnuráðgjafi hjá SSNV árið 2013. Einnig sat hún í undirbúningsnefnd fyrir Unglingalandsmót 2014 á Sauðárkróki.

 Hún hefur mjög gott vald á íslensku, ensku og dönsku bæði í töluðu og rituðu máli og býr einnig yfir grunn þekkingu í þýsku.

Verkefnastjóri starfar á stjórnsýslu- og fjármálasviði. Verkefnastjóri vinnur m.a. að skilgreindum verkefnum fyrir atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd með það að markmiði að þróa áfram ákveðin verkefni sem eru vel fallin til þess að stuðla að uppbyggingu, nýsköpun og framþróun í Skagafirði. Auk þess tekur verkefnastjóri þátt í öðrum verkefnum undir stjórn sviðsstjóra og næsta yfirmanns.