Fara í efni

Langur laugardagur

02.05.2015
Varmahlíð - mynd feykir.is

Enn og aftur er komið að laugardegi Sæluvikunnar enda er hún árleg lista- og menningarhátíð Skagfirðinga. Ef einhverjir vilja taka daginn snemma þá er kaffiklúbburinn Skín við sólu Skagafjörður með morgunkaffi í Ljósheimum kl 10. Sauðárkróksbakarí er með kynningu á lífrænum vörum milli kl 10 og 13 m.a. á Kaja Organic vörunum sem eru lífrænt vottaðar.

Í Gallerí Lafleur er í boði Sahaja jóga og ýmislegt fleira og á hádegi opnar markaður í húsi Rauða krossins. Í reiðhöllinni Svaðastöðum sýna ungir hestamenn listir sínar, bútasaumssýningin er opin í Kakalaskálanum og maddömurnar láta ekki sitt eftir liggja og verða með opið og heitt á könnunni.

Karlakórinn Heimir stígur á stokk í Miðgarði kl 20:30 og gestur þeirra þetta árið er Sverrir Bergmann. Að tónleikum loknum mun hljómsveit Sverris og Halldórs Gunnars Fjallabróðurs halda uppi stuðinum á dansleik fram eftir nóttu en ballið hefst kl 23. Á sama tíma hefst trúbbakvöld á Kaffi-Krók þar sem Biggi Sævars sér um stemminguna.