Landsmót hestamanna á Hólum

Landsmót hestamanna á Hólum 2016
Landsmót hestamanna á Hólum 2016

Nú er landsmót hestamanna í fullum gangi á Hólum í Hjaltadal og á dagskránni utan við keppnisgreinar er ýmislegt í boði.

Í kvöld að lokinni keppni verða útitónleikar með Matta Matt, Sverri Bergmann, Magna og hljómsveit. Á laugardagskvöldinu eftir formleg mótsslit kl 21:45 eru tónleikar með Hljómsveit Geirmundar, Ágústu Evu og Made in sveitin.

Á sunnudaginn er opið hús í reiðhöllinni Brúnastöðum þar sem sigurvegarar mótsins verða til sýnis og opnar húsið kl 10. Kl 11 verða kynntar rannsóknir á íslenska hestinum í Skólahöll og kl 12 verða sýnikennslur og fyrirlestrar á vegum Hólaskóla og RML á aðalvellinum.

Dagskrá keppnis- og kynbótagreina.

Fótboltaáhugafólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að missa af leik í EM því glæsileg aðstaða er á svæðinu til að horfa á Evrópukeppnina í beinni. Auk þess eru margir aðilar á staðnum að selja veitingar og ýmsar vörur.

Það er stanslaus dagskrá fyrir ungviðið á landsmótinu og nóg við að vera.  Í dag er barnasöngvakeppni kl 16, á laugardaginn er leikhópurinn Lotta og á sunnudaginn mætir Lína Langsokkur á svæðið. Úti er hægt að skoða dýrin í dýragarðinum, leika sér í sandkassanum, boltaleik, bogfimi eða fara í loftbolta. Ef ekki viðrar vel til útivistar er hægt að vera inni og dunda sér við  að lita, kubba, spila eða lesa.

Á sunnudaginn munu nokkur hrossaræktarbú í Skagafirði bjóða upp á opið hús þar sem gestir geta komið og skoðað sig um og rætt við eigendur. 

Vatnsleysa opnar kl. 10.00. Arndís og Bjössi bjóða landsmótsgesti velkomna

Hof á Höfðaströnd opnar kl. 12.00 Lilja og Baltasar bjóða landsmótsgesti velkomna

Varmaland opnar kl. 12.00 Birna og Sigurgeir bjóða landsmótsgesti velkomna

Þúfur opnar kl. 15.00. Mette og Gísli bjóða landsmótsgesti velkomna

Íbishóll opnar kl. 17.00. Elisabeth og Magnús bjóða landsmótsgesti velkomna

Auk þess er sýning um austan Vatna hrossin í Sögusetri íslenska hestsins, messa í Hóladómkirkju, bílakaffi í Samgönguminjasafninu, húsdýragarður hjá ferðaþjónustunni Brúnastöðum og sveitamarkaður á Gili svo eitthvað sé nefnt.

Velkomin í Skagafjörð!