Fara í efni

Landinn heimsækir leik- og grunnskólann á Hólum

05.10.2016

Leik- og grunnskólinn á Hólum í Hjaltadal eru staðsettir í sama húsnæði. Eitt af samvinnuverkefnum skólanna er sláturgerð á haustin, en það er fastur liður í skólastarfinu og hefur verið frá árinu 2004. Börnin sjá um sláturgerðina með aðstoð kennara og starfsfólks.

Fyrstu árin var aðal markmiðið að kynna fyrir börnunum hvernig sláturgerð færi fram og ekki framleitt mikið magn. Verkefnið hefur þróast þannig að nú er gert það mikið magn að hægt er að hafa slátur sem gert er á staðnum reglulega í matinn í skólunum allan veturinn.

 

Þáttastjórnendur Landans á RÚV heyrðu af sláturgerðinni og ætla að heimsækja skólana í dag til að fylgjast með sláturgerð. Áhugasamir geta fylgst með duglegu krökkunum á Hólum í Landanum 16. október nk.