Fara í efni

Kristín Halla nýr skólastjóri Tónlistarskóla Skagafjarðar

20.10.2025

Kristín Halla Bergsdóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Tónlistarskóla Skagafjarðar.

Kristín Halla er með framhaldspróf í fiðluleik og víóluleik, Suzuki kennararéttindi á fiðlu og víólu, diplómu í viðburðastjórnun og meistaragráðu í menningarstjórnun. Hún er starfandi staðgengill skólastjóra tónlistarskólans en hefur auk þess hátt í þrjátíu ára reynslu af tónlistarkennslu.

Kristín hefur rekið fyrirtækið Tónadans um árabil, en fyrirtækið býður upp á barna- og ungmennastarf í Skagafirði á sviði dans-, list- og tónlistargreina. Þá var Kristín formaður íslenska Suzukisambandsins um árabil, hljóðfæraleikari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í rúman áratug og hefur kennt á námskeiðum um allt land svo fátt eitt sé nefnt.

Sveitarfélagið bíður Kristínu Höllu hjartanlega velkomna í nýtt hlutverk innan tónlistarskólans og óskar henni velfarnaðar í sínum störfum.

 

Með Kristínu á mynd eru þær Rakel Sonja Ámundadóttir og Sigurbjörg Svandís Guttormsdóttir nemendur hennar.