Könnun á fjarskiptasambandi í dreifbýli á Norðurlandi vestra

Þessa dagana stendur yfir vinna á vegum SSNV við að skoða raunverulega stöðu fjarskipta á Norðurlandi vestra, en á haustþingi SSNV í október sl. var skipuð samgöngu- og innviðanefnd með það að hlutverki að vinna að upplýsingaöflun vegna samgönguáætlunar SSNV með starfsmönnum samtakanna. Staða fjarskiptamála í þéttbýli liggur nokkuð vel fyrir en staða í dreifbýlinu er ekki alveg eins ljós. Fyrirliggjandi eru mælingar Póst- og fjarskiptastofnunar en þær gefa ekki raunsanna mynd af stöðu mála þar sem mælingar þeirra eru gerðar við bestu mögulegu skilyrði á þjóðvegi eða stofn/tengivegi. Oft er það svo að þegar komið er heim að bæjum er staðan allt önnur.

Til að fá betri upplýsingar um raunverulega stöðu fjarskiptamála í dreifbýli hefur verið sent út bréf á alla bæi á starfssvæðinu. Bréfið inniheldur könnun á fjarskiptasambandi á viðkomandi bæ og er spurt um GSM samband, ljósleiðara, 3G og 4G. Einnig er spurt um stöðu mála á helstu vinnusvæðum jarðarinnar.

Boðið er upp á að könnuninni sé svarað á pappír eða á rafrænu formi. Rafrænu útgáfuna er að finna hér: http://www.ssnv.is/is/um-ssnv/konnun