Fara í efni

Jódís Helga í 1. sæti upplestrarkeppninnar

11.03.2015
Sigurvegarar 2015

Stóra upplestrarkeppnin var haldin í sal bóknámshúss FNV í gær og þar öttu kappi 11 nemendur úr öllum grunnskólunum Skagafjarðar og lásu textabút úr sögu og tvö ljóð. Nemendurnir stóðu sig með stakri prýði og báru þess glöggt vitni að hafa æft sig af kappi og fengið góða þjálfun hjá kennurum sínum. Nemendur Tónlistarskóla Skagafjarðar léku einnig nokkur lög fyrir gesti hátíðarinnar.

 Jódís Helga Káradóttir, nemandi í Varmahlíðarskóla, hlaut fyrsta sæti, Rannveig Sigrún Stefánsdóttir úr Árskóla annað sæti og Vigdís María Sigurðardóttir, Grunnskólanum austan Vatna, það þriðja. Í viðurkenningarskyni fengu allir keppendur sérprentaða ljóðabók með ljóðum eftir Anton Helga Jónsson frá Félagi íslenskra bókaútgefenda og verðlaunahafar að auki peningagjöf frá Íslandsbanka.

 Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar er þegar upp er staðið meiri uppskeruhátíð en keppni. Nú hafa allir nemendur sjöundu bekkja grunnskólanna lagt hart að sér við að æfa framsögn síðan á degi íslenskrar tungu og enn einn árgangur bæst í hóp þjálfaðra upplesara um allan fjörð.

Það var Laufey Leifsdóttir sem hélt utan um lokahátíðina.

 Hér er myndband úr keppninni fengið hjá feykir.tv