Fara í efni

Íslenska skólakerfið, styrkleikar og tækifæri

10.05.2017
Grunnur, félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa

Grunnur, félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, hélt sinn árlega vorfund á Húsafelli dagana 26.-28. apríl síðastliðinn. Á fundinum var lögð áhersla á að efla jákvæða umfjöllun um málefni barna og ungmenna og skólastarf almennt á Íslandi. Rætt var m.a. um styrkleika skólakerfisins sem liggur í stórum dráttum í vellíðan nemenda og góðum samskiptum svo og jöfnuði og breiðu námi í grunnþáttum menntunar.

Félagið fagnaði úttekt Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og tekur undir það að unnið verði í samræmi við þær tillögur sem þar koma fram. Sú  vinna taki mið af fjölbreyttum barnahópi og hvernig námsþörfum barna og ungmenna verði best mætt. Vorfundurinn undirstrikar mikilvægi þess að stýrihópur samstarfsaðila leggi áherslu á að ná sátt um sameiginlegan skilning aðila á inntaki skóla fyrir alla og hvaða grundvallarþjónustu skólar veita. Einnig að úthlutun fjármagns vegna barna með sérþarfir verði endurskoðuð og að greining verði ekki lengur talin forsenda úthlutunar.

Tækifærin framundan í skólastarfi voru rædd á fundinum og lögð áhersla á mikilvægi þess að grípa til aðgerða til að fjölga kennaranemum og starfandi kennurum. Samstillt átak þarf að eiga sér stað á komandi árum til að laða að kennara og kennaranema til að viðhalda góðu skólastarfi á Íslandi. Það felst m.a. í öflugri starfsþróun kennara og skólastjórnenda, í betri tengingu grunnnáms kennaranema við vettvanginn, auknum stuðningi við nýútskrifaða kennara og sérstökum styrkjum til þeirra sem velja kennaranám.