Fara í efni

Húsnæðisbætur í stað húsaleigubóta – breytt fyrirkomulag

25.01.2017
Séð yfir verknámshús FNV og Ártorg á Sauðárkróki

Ný lög um húsnæðisbætur tóku gildi um áramót. Breytt fyrirkomulag felst í því að sveitarfélögin annast ekki lengur húsaleigubætur eins og áður var heldur greiðslustofa húsnæðisbóta sem heyrir undir Vinnumálastofnun.

Greiðslustofan er á Sauðárkróki á Ártorgi. Búið er að opna heimasíðuna, www.husbot.is, þar sem hægt er að sækja um húsnæðisbætur og þar má einnig finna reiknivél og allar helstu upplýsingar um rétt til húsnæðisbóta.

Sérstakar húsaleigubætur verða áfram veittar af sveitarfélögunum en munu frá og með 1. janúar 2017 heita sérstakur húsnæðisstuðningur. Sveitarfélögin taka áfram við umsóknum um sérstakan húsnæðisstuðning þar með talinn húsnæðisstuðning til foreldra/forsjáraðila 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist, á námsgörðum eða á almennum markaði hér á landi vegna náms fjarri lögheimili.

Félagsmálastjóri og félagsráðgjafi í Ráðhúsi Skagafjarðar veita frekari upplýsingar um sérstakan húsnæðisstuðning, leiðbeina umsækjendum, taka við umsóknum og annast afgreiðslu þeirra.  Umsóknareyðublöð eru í Íbúagátt sveitarfélagsins.

Reglur Sveitarfélagsins Skagafjarðar um sérstakan húsnæðisstuðning verða birtar á næstu dögum hér á heimasíðunni.