Fara í efni

Hreinsunardagur í Fljótum

14.06.2017
Mynd: Fljótin að vetrarlagi

Íbúa- og átthagafélag Fljóta var stofnað í apríl sl. Tilgangur félagsins er að stuðla að eflingu samfélags, atvinnulífs og fagurs mannlífs í Fljótum í Skagafirði, en starfseminni er ætlað að vera vettvangur samvinnu um framfaramál Fljótamanna, sem og að standa fyrir verkefnum og viðburðum sem styðja við jákvæða samfélagsþróun innan sveitarinnar. Á stofnfundi var ákveðið að standa að hreinsunardegi í Fljótum og varð föstudagurinn 16. júní fyrir valinu.

Að sögn Sjafnar Guðmundsdóttur, formanns félagsins, er gert ráð fyrir að íbúar, sumarhúsaeigendur og aðrir velunnarar hittist á Sólgörðum í Fljótum kl. 12 á föstudag þar sem farið verður yfir skipulag dagsins. Búið er að skipta svæðinu niður þannig að bændur á hverju svæði hafi yfirsýn yfir um 5 km svæði. Bændur koma með tæki, kerrur og þess háttar búnað sem notaður verður við hreinsunina.

Kl. 16 er gert ráð fyrir að hittast aftur á Sólgörðum þar sem boðið verður upp á lummukaffi, sundlaugin verður opin og fólk getur átt saman góða stund eftir afkastamikinn dag.

Umræða hefur skapast um að næsta skref verði að hreinsa fjörurnar í Fljótum, en tímasetning þeirrar hreinsunar hefur ekki verið ákveðin.