Fara í efni

Hraðatakmarkanir á Sauðárkróki

14.04.2014
Ökum ekki of hratt.

Þessa dagana er unnið að uppsetningu skilta vegna lækkunar hámarkshraða í íbúagötum á Sauðárkróki. Nokkrar umræður hafa verið um þessi mál á síðustu árum og á fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 voru lagðar 3 milljónir króna í verkefnið. Verkið hefur tafist af ýmsum ástæðum, en nú er uppsetning skilta langt komin og stefnt að því að hraðatakmarkanir taki gildi 1. maí nk.  

Tillögur að hraðatakmörkunum voru ræddar á fundum umhverfis- og samgöngunefndar og tóku fyrstu tillögur nokkrum breytingum eftir umræður í nefndinni. Einnig var leitað eftir umsögn frá lögreglunni á Sauðárkróki.

Endanleg útfærsla á hraðatakmörkunum er sýnd á meðfylgjandi teikningu. Þar sést að hámarkshraði er lækkaður niður í 35km/klst í íbúahverfum en stofnbrautir innan bæjarmarka halda hámarkshraða 50km/klst. Með lækkun hámarkshraða í íbúahverfum er stuðlað að auknu öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda, ekki síst barna og unglinga sem oft eru að leik í íbúagötum eins og við verðum svo greinilega vör við nú þegar vora tekur.