Fara í efni

Hjörvar Halldórsson ráðinn sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs

28.02.2024

Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur ákveðið að ráða Hjörvar Halldórsson í starf sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs en staðan var auglýst laus til umsóknar í janúar sl. Alls bárust sex umsóknir um stöðuna en tveir umsækjendur drógu umsókn sína til baka.

Hjörvar er með B.Sc. gráðu í véltæknifræði frá Tækniháskóla Íslands. Hann er einnig menntaður vélfræðingur, lauk D Class frá Vélskóla Íslands og er með sveinspróf í vélsmíði. Þá hefur hann setið fjölda námskeiða, m.a. í verkefnastjórnun, fjármálum, leiðtogaþjálfun og -þróun.

Hjörvar hefur starfað sem verksmiðjustjóri hjá Steinull hf. frá 2021. Þar sinnir hann m.a. viðhaldi, endurnýjun og uppfærslu framleiðslubúnaðar, húsnæðis og lóðar ásamt því að sjá um innkaup og verkefnastjórn fjárfestingaverkefna. Áður starfaði Hjörvar sem verkefnastjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga tímabilið 2018-2021. Þar stýrði hann fjölþættum og margvíslegum verkefnum, t.a.m. nýbyggingum og endurbyggingu húsnæðis, stýrði breytingum og endurhönnun m.t.t. framleiðslu á ýmsum vörum en einnig sá hann um að innleiða persónuverndarmál, nýtt tölvustýrt viðhaldskerfi og fleira. Þar áður starfaði Hjörvar hjá Roche Diagnostics í Sviss, sem deildarstjóri verkfræðideildar, verkefnastjóri í sérverkefnum og sem ráðgjafi í umhverfissjálfbærni.

Hjörvar hefur víðtæka og yfirgripsmikla þekkingu og breiðan tæknilegan bakgrunn og hefur komið að rekstri alls kyns kerfa svo sem húskerfa, loftræstikerfa, kælikerfa, framleiðsluvéla, rafkerfa og öryggiskerfa. Hjörvar hefur einnig mikla reynslu af stjórnun, rekstri og áætlanagerð. Hjörvar mun taka til starfa sem sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs með vorinu og tekur við af Steini Leó Sveinssyni sem hefur gegnt stöðunni frá árinu 2020 en fer nú í önnur verkefni innan sviðssins.

Nöfn þeirra sem sóttu um stöðu sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs eru eftirfarandi, í stafrófsröð:

  • Hjörvar Halldórsson – verksmiðjustjóri
  • Kristbjörn J. Bjarnason – sjálfstæður ráðgjafi
  • Kristinn HeiðarJakobsson – verkefnastjóri
  • Luis Miguel Feijó da Cruz Queiroz – verkefnastjóri