Fara í efni

Hátíðahöld um sjómannadagshelgina

03.06.2016
Kararóður

Nú er sjómannadagshelgin framundan en frídagur sjómanna er á sunnudaginn og ýmislegt um að vera í firðinum í tilefni dagsins.

Hátíðahöldin á Sauðárkróki eru á laugardeginum og hefjast með dorgveiðikeppni kl 10 og skemmtisiglingu með Málmey SK 1 kl 12. Síðan verður ýmislegt um að vera á hafnarsvæðinu, kararóður, flotgallasund, kassaklifur, pylsur og fiskisúpa, furðufiskasýning og margt fleira. Ljósmyndakeppni Sjávarsælunnar í samstarfi við Tengil og Nýherja stendur yfir allan daginn og eru gestir hvattir til að senda inn myndir í keppnina. Kaffisala Skagfirðingasveitar verður í neðri salnum á Kaffi Krók milli kl 12 og 16.

Um kvöldið er skemmtun í íþróttahúsinu á Sauðárkróki, SjávarSæla, þar sem boðið verður upp á fjölbreytt hlaðborð  og ball að því loknu með Ellerti Heiðari og Von.

Á sunnudaginn eru hátíðahöldin á Hofsósi og hefjast þau kl 13 með helgistund við minnisvarða um látna sjómenn í kvosinni. Að henni lokinni hefst dagskrá á bryggjusvæðinu m.a. dorgveiðikeppni, koddaslagur og boðið í siglingu. Þegar skemmtuninni á hafnarsvæðinu lýkur opnar kaffisala í Höfðaborg sem slysavarnardeildin Harpa sér um.