Fara í efni

Grænfáninn veittur í þriðja sinn í skólunum austan Vatna

02.10.2014

Margir skólar taka þátt verkefninu -skólar á grænni grein- og eru þeir um 50 þúsund talsins víðsvegar um heiminn. Þetta er stærsta umhverfismenntaverkefni hér á landi sem og annarsstaðar á jarðkringlunni. Landvernd er fulltrúi alþjóðlegu samtakanna hér á landi og sér um veitingu grænfánans.   245 skólar á landinu eru þátttakendur í verkefninu á öllum skólastigum en um 500 skólar eru á landinu. Grænfáninn er veittur til tveggja ára í senn og til að halda fánanum verður verkefnið að vera lifandi og í stöðugri þróun. 

Grænfánaverkefnið er bæði ætlað  til kennslu í bekk og/eða hópi og einnig til að bæta daglegan rekstur viðkomandi skóla. Verkefnið stuðlar að aukinni þekkingu nemenda og starfsfólks og  er ætlað að styrkja skólana bæði til að taka ábyrga afstöðu og innleiða raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum.

Leik- og grunnskólinn austan Vatna hafa unnið ýmis verkefni í tengslum við skóla á grænni grein s.s. að rækta grænmeti og kartöflur og útikennslan hefur einnig orðið markvissari eftir að verkefnið hófst.  Haldnir eru fundir einu sinni í mánuði þar sem nemendur fá fræðslu um umhverfismál, börnin fá að tjá skoðun sína og sett eru markmið til að fara eftir og síðan er farið yfir hvort verið sé að fylgja þeim eða ekki.

Nemendur föndra mikið úr endurvinnanlegu efni og búa til sinn eigin pappír. Börnin á Hofsósi taka þátt í flokkun á sorpúrgangi en ekki börnin á Hólum þar sem flokkunargámar eru ekki enn til staðar þar. Umhverfisdagur er haldinn einu sinni yfir veturinn og dagur náttúrunnar er í hávegum hafður að sögn Önnu Árnínu Stefánsdóttur leikskólastjóra Tröllaborgar.