Fara í efni

Framkvæmdir við nýja leikskóladeild í Varmahlíð

25.02.2016
Leikskólinn Birkilundur í Varmahlíð

Sveitarfélagið Skagafjörður ásamt Akrahreppi ákváðu í október s.l. að bregðast við brýnum vanda foreldra ungra barna í Varmahlíð vegna dagvistarmála. Þá varð ljóst að dagforeldri sem starfað hafði á svæðinu myndi láta af störfum. Sendi Sveitarfélagið frá sér fréttatilkynningu um málið þann 07. október 2015. 

 

Í kjölfar þessarar ákvörðunar var farið í það að finna húsnæði sem gæti hentað undir leikskóla fyrir yngstu börnin, finna verktaka í verkið, afla allra leyfa osfrv. Vonir stóðu til að hægt yrði að vinna verkið hratt og opna nýja deild við leikskólann strax upp úr áramótum. Breytingar sem varð að gera á húsnæðinu urðu hins vegar umfangsmeiri en áætlað var í fyrstu og annir verktakans hafa verið miklar. Framkvæmdir hafa því dregist og opnun nýrrar leikskóladeildar fyrir yngstu börnin í Varmahlíð sömuleiðis. Fræðslunefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur bókað á fundum sínum áhyggjur af því hversu verkið hefur dregist en nú er unnið að því að klára verkefnið eins fljótt og auðið er stefnt að afhendingu hússins þann 15. mars n.k.

 

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ætíð sett mikinn metnað í að bjóða upp á næg og ódýr leikskólarými og er eitt fárra sveitarfélaga á landinu sem hefur leitast við að bjóða leikskólarými fyrir eins árs börn og eldri. Flest stærri sveitarfélög miða leikskólagöngu við 18 mánaða aldur eða eldri. Því er hins vegar ekki að neita að leikskólinn í Varmahlíð hefur ekki getað orðið við öllum beiðnum um leikskólavist og erfitt hefur reynst að fá dagforeldra til starfa. Ítrekað hefur verið auglýst eftir fleiri dagforeldrum til starfa á svæðinu en án árangurs. Því var ákveðið að fara í þessar miklu og dýru framkvæmdir við nýja leikskóladeild fyrir yngstu börnin í Varmahlíð.

 

Það er von Sveitarfélagsins Skagafjarðar að þessi nýja deild leysi úr þeim vanda sem skortur á dagvistarrýmum skapar foreldrum á svæðinu.