Fara í efni

Framkvæmdir við gervigrasvöll að hefjast

16.10.2017
Iðkendur taka fyrstu skóflustungurnar

Iðkendur knattspyrnudeildar Tindastóls tóku fyrstu skóflustungur að gervigrasvelli kl. 15 í dag. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í maí 2018.
Byggðarráð bókaði eftirfarandi á fundi sínum þann 29. September 2016:
Það er markmið og metnaðarmál Sveitarfélagsins Skagafjarðar að ástunda hagkvæmni í rekstri og skapa þannig forsendur til að efla jafnt og þétt innviði samfélagsins. Þannig voru starfsstöðvar Árskóla á Sauðárkróki sameinaðar undir einu þaki haustið 2013 og starfsstöð Tónlistarskóla Skagafjarðar á Sauðárkróki flutt á sama stað haustið 2016, líkt og áður hafði verið gert í öðrum grunnskólum héraðsins. Sú bygging sem áður hýsti yngra stig Árskóla við Freyjugötu á Sauðárkróki hefur nú verið seld en ætlun kaupanda er að breyta húsnæðinu í íbúðir til að mæta þeirri húsnæðisþörf sem uppi er í Skagafirði.

Í einum hluta gamla barnaskólans er lítill íþróttasalur sem hefur verið afar vel nýttur til fjölbreyttrar íþróttaiðkunar. Við brotthvarf hans eykst því enn sá vandi sem uppi er á Sauðárkróki varðandi aðstæður til íþróttaiðkunar en íþróttahúsið á Sauðárkróki annar nú þegar ekki eftirspurn sem er eftir tímum í húsinu. Þessu til viðbótar hefur lengi verið ljóst að sú vetraræfingaraðstaða sem íþróttafólki á Sauðárkróki er boðið er upp á er með engu móti ásættanleg enda sparkvöllurinn við Árskóla einn sá minnsti á landinu. Hefur það m.a. haft veruleg áhrif á æfingar hjá þeim fjölmörgu knattspyrnuiðkendum sem í sveitarfélaginu búa. Skortur á slíkri aðstöðu skerðir einnig samkeppnishæfni sveitarfélagsins er kemur að búsetuvalkostum og hefur áhrif á hvar fjölskyldur velja sér heimilisfestu.

Í ljósi þessa beinir byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar því til sviðstjóra veitu- og framkvæmdasviðs að hafin verði hönnun og kostnaðarmat þess að setja gervigras á norðurhluta æfingasvæðis við íþróttavöllinn á Sauðárkróki. Væri með því móti losað um tíma sem annars væru í íþróttahúsinu. Byggðarráð leggur jafnframt áherslu á að þeim framkvæmdum verði flýtt sem kostur er enda þörfin fyrir úrbætur á íþróttaaðstöðu brýn.

Knattspyrnudeild Tindastóls hvatti iðkendur til að mæta með skóflu með sér og taka þannig þátt með táknrænum hætti þátt í að byggja upp enn betri íþróttaaðstöðu á Sauðárkróki. Búið er að girða vinnusvæðið af og gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næstu dögum. Að skóflustungum loknum bauð Knattspyrnudeild Tindastóls upp á grillaðar pylsur og svala. 

Íþr.völlur

Íþr.völlur

Íþr.völlur