Fara í efni

Framkvæmdir á Hólum vegna Landsmóts hestamanna á næsta ári hafnar

07.08.2015
Framkvæmdir við mótssvæðið á Hólum í Hjaltadal

Framkvæmdir við mótssvæðið á Hólum í Hjaltadal eru hafnar og unnið er hörðum höndum að því að aðstæður verði sem glæsilegastar þegar Landsmót hestamanna verður haldið þar dagana 27. júní til 3. júlí 2016.

Heima á Hólum eru nú þegar til staðar ýmiss konar mannvirki, stofnanir og rekstur sem styðja við fyrirhugað Landsmótshald. Þar má nefna þrjár reiðhallir, mikinn fjölda hesthúsplássa og töluvert gistirými, sem og Sögusetur íslenska hestsins. Þá er enn ónefndur Háskólinn á Hólum sem óumdeilanlega er í fararbroddi á heimsvísu, hvað varðar menntun og rannsóknir í tengslum við íslenska hestinn. Hólar skipa því mikilvægan sess í hugum unnenda íslenska hestsins um veröld víða.

Þær framkvæmdir sem nú standa yfir felast fyrst og fremst í því að útbúa og laga reiðvelli og áhorfendasvæði, en einnig ýmislegt annað tengt umgjörð mótsins. Aðalverktaki við framkvæmdirnar er Vélaþjónustan Messuholti ehf.

Forsala miða á Landsmótið á Hólum 2016 er hafin og fer fram í gegnum vefinn www.tix.is. Hagstæðast er að kaupa miða á mótið í gegnum forsölu. Lægstu verðin verða í boði til næstu áramóta en hækka eftir það og dýrast verður að kaupa miða í hliðinu á mótinu sjálfu. Miðaverð í forsölu hefur lækkað frá síðasta Landsmóti. Verð til unglinga hefur lækkað verulega og börn undir 14 ára aldri þurfa ekki að greiða aðgangseyri. Með þessu vilja aðstandendur mótsins leggja áherslu á að Landsmót hestamanna sé fjölskylduskemmtun, og fjölmargt verður gert til að skapa afþreyingu fyrir alla fjölskylduna.

Þess má að lokum geta, að á næsta ári verða liðin 50 ár frá því Landsmót hestamanna var síðast haldið á Hólum í Hjaltadal, árið 1966.