Fara í efni

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum um styrki fyrir árið 2025

17.09.2024
Mynd frá Ketubjörgum en sveitarfélagið fékk styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir uppbyggingu bílastæða og útsýnissvæða sitthvorum megin við björgin.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur opnað fyrir umsóknir um styrki fyrir árið 2025. 

Markmið og hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi. Það er jafnframt markmið sjóðsins að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja ásamt fjármögnun vegna undirbúnings- og hönnunarvinnu sem er nauðsynleg vegna áðurgreindra framkvæmda.

Þess má geta að sjóðnum er ekki heimilt m.a. að bera rekstrarkostnað af mannvirkjum og vegna náttúruverndarsvæða eða annarra ferðamannastaða, fjármagna framkvæmdir sem eru á landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum né að veita fjármagni til verkefna sem þegar er lokið. 

Umsóknartímabil er frá og með 12. september 2024 til kl. 13 þriðjudaginn 15. október. Umsóknir sem berast eftir þann tíma koma ekki til álita.

Nánari upplýsingar um sjóðinn sem og hlekk á rafræna umsókn má finna á upplýsingasíðu um umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Þess má geta að starfsmenn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra - SSNV bjóða aðstoð við umsóknarferlið en bent er á að hafa tímanlega samband ef óskað er eftir aðstoð.

Sé óskað eftir umsögn eða aðstoðar frá sveitarfélaginu vinsamlegast hafið samband við verkefnastjóra atvinnu-, menningar- og kynningarmála:

Heba Guðmundsdóttir - heba@skagafjordur.is - 455 6000.

Sigfús Ólafur Guðmundsson - sigfusolafur@skagafjordur.is - 455 6000.