Fara í efni

Fræðsludegi 2020 aflýst

17.08.2020
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri og Alma Möller landlæknir undirrita samning um Heilsueflandi Samfélag á árlegum fræðsludegi skólanna í Skagafirði í fyrra.

Í dag, mánudaginn 17. ágúst, stóð til að árlegur fræðsludagur skólanna í Skagafirði yrði haldinn í Miðgarði, Varmahlíð. Vegna fjöldatakmarkana sem í gildi eru vegna Covid 19 varð því miður að aflýsa fræðsludeginum í þetta sinn. Von var á u.þ.b. 230 þátttakendum, starfsfólki úr leik-, grunn- og Tónlistarskóla Skagafjarðar, starfsfólki Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og starfsfólki Farskólans, miðstöðvar símenntunar á Norðurlandi vestra. Búið var að skipulegga þétta dagskrá sem samanstóð m.a. af ýmsum áhugaverðum erindum á sal en einnig fjölmörgum málstofum þar sem starfsfólk skólanna ætlaði að miðla af reynslu sinni. 

Meðal erinda sem voru á dagskrá má nefnda erindið „Þú hefur áhrif“  sem Anna Steinsen, eigandi og þjálfari á námskeiðum hjá KVAN, ætlaði að sjá um. Sólveig Rósa Davíðsdóttir, sálfræðingur, ætlaði að fjalla um geðheilbrigði barna og ungmenna. Bryndís K. Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Farskólans, hugðist  kynna starfsemi Farskólans, fræða um fullorðins- og framhaldsfræðslu og ræða um hvað einkennir fullorðna námsmenn. Einnig var búið að skipuleggja samtals tólf fjölbreyttar málstofur sem starfsfólk hefði val um að taka þátt í eftir áhugasviði, sjá hér neðar.

Eitt af verkefnum starfsfólks Fræðsluþjónustu Skagfirðinga ár hvert hefur verið að skipuleggja og undirbúa fræðsludag skólanna í Skagafirði. Sem sjá má stefndi í afar áhugaverðan dag nú í ár. Við stefnum ótrauð að fræðsludegi í ágúst 2021 og getum þá vonandi nýtt okkur eitthvað að þeim áhugaverðu erindum og málstofum sem til stóð að fræðast um í dag.

Hér má sjá málstofur sem til stóð að væru í boði á fræðsludegi 2020:

  1. Málörvun eins til þriggja ára barna.
  2. Jákvæð sálfræði í skólastarfi.
  3. Líðan ungmenna með hliðsjón af COVID 19.
  4. Frístundir barna og ungmenna.
  5. Reynsla þín er mikils virði. Kynning á ráðgjöf og raunfærnimati fyrir fullorðna.
  6. Símenntun almennra starfsmanna skólanna, kynning á námsleiðum.
  7. Málstofa fyrir starfsfólk mötuneyta.
  8. Seesaw verkefnamöppur til að halda utan um allt nám og feril barna frá leikskóla til loka grunnskóla.
  9. Mikilvægi tónlistar í uppeldi barna.
  10. Námsframboð fyrir fullorðna við FNV.
  11. Kynning á M.ED. lokaverkefni. Notað og nýtt í textílmennt: Samvinna kennara um þróun kennsluverkefna til aukinnar sjálfbærni.
  12. Samvinna tónlistarskóla og framhaldsskóla í tónlist.