Fara í efni

Fræðsludagur skóla í Skagafirði haldinn í 13. skipti

26.08.2024

Fræðsludagur skóla í Skagafirði var haldinn í Miðgarði mánudaginn 19. ágúst. Þar kom saman starfsfólk leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskóla, starfsmenn á fjölskyldusviði og kjörnir fulltrúar í fræðslunefnd. Fræðsludagurinn er árlegur viðburður og var nú haldinn í 13. sinn. Tilgangur dagsins er fyrst og fremst að hefja nýtt skólaár með samveru og samtali um áherslur í skólamálum hverju sinni. Á þessum degi gefst starfsfólki einstakt tækifæri til að styrkja tengsl þvert á skólastig og má með sanni segja að bjartsýni og gleði fyrir komandi vetri hafi verið ríkjandi.

Kristófer Már Maronsson, formaður fræðslunefndar setti fræðsludaginn formlega og fór yfir áherslumál fræðslunefndar á komandi vetri og þau verkefni sem hafa verið efst á baugi undanfarið.

Bryndís Lilja, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, og Rakel Kemp, leiðtogi farsældar, fræðslu og ráðgjafar fóru yfir breytingar sem gerðar hafa verið á skipuriti og miðlægri þjónustu á fjölskyldusviði. Þá fóru þær yfir helstu verkefni ráðgjafa og hvaða starfsmenn koma að þjónustu. Markmiðið með þeim breytingum sem nýlega voru gerðar er að hafa alla ráðgjöf í einu teymi og færa okkur nær því sem farsældarlögin boða.

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum kynnti starfsemi skólans, möguleika á samstarfi innan Skagafjarðar og framtíðarsýn stofnunarinnar.

Sara Níelsdóttir og Guðbjörg Einarsdóttir frá Fjölbrautaskóla Norðurlans vestra kynntu þróunarverkefni sem þau hafa verið að innleiða um leiðsagnarnám. Því er ætlað að vera valdeflandi fyrir nemendur bæði sem námsmenn og einstaklingar. Þá fóru þær einnig yfir annað sem er framundan í skólastarfi hjá FNV og má þar nefna námsmatskerfi, hrósviku og rýni á námsmenningu skólans.

Ásdís Ýr Arnardóttir, sérfræðingur hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra kynnti forvarnarstarf lögregluumdæmisins. Hún fór yfir áhugaverða tölfræði á svæðinu og sagði frá því að tölfræði úr rannsóknum myndi því miður ekki alltaf endurspeglast í málum sem rata inn á borð lögreglunnar. Ásdís talaði einnig um möguleika á samstarfi við skólastofnanir og hvatti til þess að samstarf yrði eflt.

Hugrún Vignisdóttir, sálfræðingur á Zen sálfræðistofu var með erindi sem bar yfirskriftina Tjattað um trans. Í erindi sínu fjallaði hún um hið vestræna kynjakerfi sem byggir á kynjatvíhyggju. Kynjatvíhyggjan birtist frá fæðingu barna. Hugrún fór einnig yfir hugtök sem mikilvægt er að þekkja og skilja. Þá talaði hún um stöðu og hindranir hinsegin ungmenna á Íslandi og það hvernig fólk getur veitt stuðning.

Eftir hádegi var hægt að velja á milli tveggja málstofa. Annars vegar var í boði að hlusta á Valdimar Heiðar Valsson, skólastjóra Hlíðarskóla á Akureyri fjalla um hvernig takast eigi á við krefjandi hegðun barna og unglinga. Hins vegar var í boði að hlusta á Önnu Lilju Sævarsdóttur, leikskólastjóra á Iðuvöllum á Akureyri fjalla um þróunarverkefni sem heitir Stilla og snýst um hæglátt leikskólastarf.

Bjarkey Dalrós Rúnarsdóttir flutti tvö lög á píanó að loknum málstofum en hún er nemandi við Tónlistarskóla Skagafjarðar.

Hugrún Vignisdóttir flutti annað erindi um það hvernig best væri að hlúa að sér í starfi.

Bryndís Lilja Hallsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs sleit deginum með því að tala um áhrif breytinga. Að lokum þakkaði hún starfsfólki fyrir sín mikilvægu og góðu störf.

Starfsfólk sem tók þátt í fræðsludeginum í ár var um 240 talsins. Vonandi hafa öll haft gagn og gaman af deginum og tekið með sér aukna þekkingu og gleði í veganesti fyrir nýtt skólaár.