Frábær árangur Skagfirðinga í Skólahreysti

Frá verðlaunaafhendinu Skólahreystis. Mynd: Bjarki Már Árnason
Frá verðlaunaafhendinu Skólahreystis. Mynd: Bjarki Már Árnason

Skólahreysti er liðakeppni milli grunnskóla landsins. Hvert lið samanstendur af tveimur strákum og tveimur stelpum sem öll þurfa að vera nemendur í 9. og/eða 10. bekk síns skóla. Strákarnir keppa í upphífingum og dýfum og stelpurnar í armbeygjum og hreystigreip. Bæði kyn keppa síðan í hraðaþraut. Skólahreysti er viðurkennd af og nýtur opinbers stuðnings menntamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis,  norrænu ráðherranefndarinnar, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og sveitarfélaga. 

Undankeppnin á Norðurlandi var haldin miðvikudaginn 29. mars sl. Þar kepptu allir þrír grunnskólarnir í Skagafirði, en auk þeirra voru 7 aðrir skólar mættir til keppni úr Húnaþingi, Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. 

Þegar keppni hófst var ljóst að Varmahlíðarskóli ætti raunhæfan möguleika á að komast í verðlaunasæti. Spennan jókst jafnt og þétt eftir því sem leið á keppnina og virtust verðlaun alltaf verða raunhæfari og raunhæfari möguleiki. Grunnskólinn austan Vatna var efstur eftir einstaklingsþrautirnar og því varð keppnin í hraðaþrautinni æsispennandi. Báðir skólar náðu góðum tíma í þrautinni en úrslitin voru þó ekki tryggð fyrr en síðustu keppendur komu í mark. Varmahlíðarskóli sigraði riðilinn með einu stig meira en Grunnskólinn austan Vatna sem lenti í öðru sæti. Sannkallaður Skagfirðingaslagur! Þar með hefur Varmahlíðarskóli tryggt sér þátttökurétt í lokakeppni Skólahreystis sem fram fer í Reykjavík 26. apríl næstkomandi.

Fulltrúar skólans í keppninni eru Andri Snær Tryggvason í 10.bekk, Freyja Kolbrá Stefánsdóttir í 10.bekk, Dalmar Snær Marinósson í 10.bekk og Guðný Rúna Vésteinsdóttir 9. bekk. Varamenn voru þau Kristmar Helgi Jónsson í 10. bekk og Ásta Aliya Friðriksdóttir í 8.bekk. Undirbúningur og þjálfun hefur verið í traustum höndum Sigurlínu H. Einarsdóttur íþróttakennara.

Við hlökkum til að fylgjast með gengi Varmahlíðarskóla í lokakeppninni og óskum öllum, keppendum og aðstandendum, innilega til hamingju með árangurinn.

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem fengnar eru frá Varmahlíðarskóla.

Skolahr  Skolahrey

Skolahreyst  SKolahreysti