Fara í efni

Forsælan að hefjast í Skagafirði

23.04.2014
Gleðilegt sumar !

Forsælan hefst nú í dag, síðasta vetrardag, miðvikudaginn 23. apríl með tónleikum kvennakórsins Sóldísar í Sauðárkrókskirkju kl 20:30. Sumardagurinn fyrsti verður með hefðbundnu sniði og hefst skrúðganga skátafélagsins Eilífsbúa kl 10:30 þar sem lagt verður af stað frá bóknámshúsi FNV á Sauðárkróki og haldið til skátamessu í Sauðárkrókskirkju. Í Húsi frítímans mun félagið Sjálfsbjörg verða með opið kaffihús kl 14-17 á sumardaginn fyrsta og vortónleikar Skagfirska kammerkórsins verða í Miðgarði og hefjast kl 20:30.

Föstudagurinn 25. apríl hefst með opnun myndlistarsýningar efsta stigs Árskóla í Sauðárkróksbakaríi kl 7 um morgunin. Umhverfisdagur verður í leikskólanum Tröllaborg og Grunnskólanum austan Vatna frá kl 9-12 og eru áhugasamir hvattir til að mæta. Kl 18 opnar myndlistarsýningin Litbrigði samfélags 2014 í Gúttó en það eru félagar í Sólon sem standa að henni. Einleikurinn Eldklerkur verður sýndur í Húsi frítímans kl 20:30 á vegum Möguleikhússins og kvöldið endar síðan með Trúbbakvöldi á Kaffi Krók kl 22 þar sem Böddi Dalton sér um stemminguna.