Fara í efni

Fjölbreytt starfsemi skagfirskra safna

17.01.2017
Baðstofan í gamla bænum. Mynd Byggðasafn Skagfirðinga

Fjölbreytt starfsemi er hjá Byggðasafni Skagfirðinga og er útgáfa fræðirita einn þáttur starfseminnar. Ritið, Þrif og þvottar í torfbæjum, kom út á dögunum en þetta er annað ritið í ritröð safnsins. Sögusetur íslenska hestsins setti á síðasta ári upp nýja sýningu, Uppruni kostanna, og kynningarefni safnsins var allt yfirfarið og endurútgefið.

Rit Byggðasafnsins, Þrif og þvottar í torfbæjum, fjallar um þrifnaðarhætti þegar fólk bjó í torfbæjum og spannar tímann frá miðöldum til nútíma. Á heimasíðu safnsins segir að kastljósinu sé þó einkum beint að síðustu öldum. Fjallað um húsþrif, fataþvotta, líkamshirðingu, áhöld og efni til þrifa og þvotta, aðbúnað í bæjunum og hvernig þeir höfðu bein áhrif á þrifnaðarhætti. Höfundur ritsins er Sigríður Sigurðardóttir safnstjóri.

Fyrsta ritið kom út árið 2012 þar sem fjallað er um skagfirsku kirkjurannsóknina og sagt frá henni og elstu kirkjum í Skagafirði sem til eru ritheimildir um frá tímabilinu 1000-1300. Bæði ritin eru til sölu í safnbúðinni í Glaumbæ.

Sögusetur íslenska hestsins var með öfluga starfsemi á síðasta ári og auk þess að setja upp nýja sýningu á efri hæðinni og yfirfara allt kynningarefni tók setrið virkan þátt í Landsmóti hestamanna sem fram fór á Hólum í Hjaltadal síðasta sumar og ráðstefnu um hrossarækt í 100 ár. Á heimasíðu setursins segir að helstu verkefni þessa árs séu að yfirfara fastasýninguna á neðri hæðinni, efla safnbúðina og stórauka rafræna miðlun. Einnig er stefnt að auknum gestakomum en gestafjöldi jókst um 30% á síðasta ári.

Á árinu 2016 varð mikil fjölgun safngesta í Minjahúsinu á Sauðárkróki, þar sem tala þeirra næstum tvöföldaðist, og í gamla bænum í Glaumbæ. Samtals komu 49.520 manns á þessa tvo sýningarstaði safnsins. 4.518 í Minjahúsið og 45.002 í Glaumbæ.

Séu gestakomur skoðaðar allsstaðar í Skagafirði, þar sem sýningar eru meira og minna byggðar á safngripum frá Byggðasafni Skagfirðinga, eins og á Vesturfarasetrinu á Hofsósi og Sögusetri íslenska hestins á Hólum, voru gestirnir 57.974. Sé gestum Víðimýrarkirkju bætt við heimsóttu 66.828 gestir sýningar og minjastaði sem Byggðasafnið tengist á árinu 2016. Nánar má sjá gestakomur á heimasíðu safnsins.