Fara í efni

Fjölbreytt starf og gestakomur í Byggðasafnið

07.09.2015

Nú er mesta annatíma ársins í ferðamennskunni að ljúka og hefur Byggðasafnið tekið saman tölur yfir gesti til 31. ágúst þetta árið. Ellefu starfsmenn unnu við gestamóttöku þetta sumarið og tóku á móti samtals 39.218 gestum, 2.279 í Minjahúsinu og 36.939 í Glaumbæ. Fjölgað hefur um 3.877 gesti á milli ára í Glaumbæ, miðað við sama dag í fyrra, en þeim hefur hinsvegar fækkað í Minjahúsinu og munar þar um að 1.330 færri leituðu upplýsinga þar í sumar heldur en í fyrra. Alls heimsóttu 39.752 manns safnið árið 2014.

Opið verður í Glaumbæ alla daga til 20. september milli kl 9 og 18 en frá 21. september til 20. október verður gamli bærinn í Glaumbæ opinn milli kl 10 og 16 alla virka daga.  Áskaffi verður opið alla daga til 15. september milli kl 11 og 17 og búið er að loka Minjahúsinu á Sauðárkróki en opnað eftir samkomulagi ef þess er óskað.

Mikið rannsóknarstarf er unnið í Byggðasafninu. Starfsmenn fornleifadeildar aðstoðuðu byggðasöguritara nú í sumar eins og undanfarin ár við rannsóknir og skráningar forn- og eyðibýla. Samtals 25 manns komu að Skagfirsku kirkjurannsóknninni (ScASS) á þessu sumri og unnu við fornleifauppgröft í Keflavík og fornleifarannsóknir og -skráningar í Hegranesi. Einnig hafa verið skráðar fornleifar í Hrolleifsdal, Flókadal, Jökuldal og á Héraði segir á heimasíðu safnsins .

Mikil vinna er framundan eftir rannsóknir sumarsins, úrvinnsla gagna og skýrsluskrif, Fornverkaskólanámskeið á Tyrfingsstöðum, fornleifaskráningar, móttaka gesta, rannsóknir, ljósmyndun safnmuna, skráning ljósmynda, fjárhagsgerð, styrkjaumsóknir og allt það sem tilheyrir haustinu segir ennfremur á vef Byggðasafns Skagfirðinga.