Fara í efni

Fjölbreytt og skemmtileg jóladagskrá í skagfirskum skólum

19.12.2014
Jólatré á Sauðárkróki

Núna fyrir jólin er fjölbreytt og skemmtileg jóladagskrá í skagfirskum skólum. Síðasti skóladagurinn fyrir jólafrí er í grunnskólunum í dag og litlu-jól haldin að því tilefni.

Í Varmahliðarskóla í gærmorgun kusu nemendur og starfsfólk sigurvegara í hinni árlegu piparkökuhúsakeppni.  Í dag halda nemendurnir litlu-jól kl. 10. Í gær voru Lúsíur úr 6. bekk Árskóla á ferðinni um bæinn og sungu fyrir bæjarbúa. Í dag eru svo litlu-jólin hjá þeim og safnast nemendur skólans saman í íþróttahúsinu og ganga í kringum jólatréð. Í Grunnskólanum austan Vatna eru einnig haldin litlu-jól í dag, síðasta dag fyrir jólafrí. Þau héldu sína árlegu jólavöku nemendafélagsins í Höfðaborg í gærkvöldi og áttu þar saman notalega jólastund. 

Í leikskólanum Ársölum voru haldin litlu-jól á miðvikudaginn og þá mættu börnin spariklædd og gengu í kringum jólatréð með jólasveinunum. Í dag ætla þau að kveikja á englakertinu í aðventustund. Í gær voru litlu-jólin haldin á Barnaborg á Hofsósi, jólasveinarnir mættu að sjálfsögðu og gáfu börnunum smá glaðning áður en þeir fóru sína leið. Í Brúsabæ á Hólum verða litlu-jólin haldin í dag. Undanfarna daga hafa þau verið að jólaföndra, syngja jólalög og hlusta á jólasögur. Börnin í Birkilundi í Varmahlíð héldu sín litlu-jól í gær og svo hafa verið hjá þeim tveir litlir aðstoðarmenn að fara yfir brunavarnir í leikskólanum.