Fjölbreytt dagskrá á Hólahátíðinni helgina 16. - 17. ágúst
Það verður sannkölluð stemning á Hólum um helgina þegar Hólahátíð fer fram með fjölbreyttri dagskrá fyrir unga sem aldna.
Laugardagurinn 16. ágúst hefst kl. 14.00 með barnadagskrá á vegum skátafélagsins Eilífsbúa. Kl. 16.00 tekur við notaleg söngstund í Hóladómkirkju í umsjá Gunnars Rögnvaldssonar. Síðan geta gestir skellt sér í grill við Auðunarstofu kl. 16.30.
Sunnudagurinn 17. ágúst hefst hátíðlega kl. 14.00 með hátíðarmessu í Hóladómkirkju. Sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup prédikar og við altari þjóna einnig sr. Halla Rut Stefánsdóttir, sr. Sigríður Gunnarsdóttir prófastur, sr. Jón A. Baldvinsson fyrrum vígslubiskup og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir fyrrum vígslubiskup. Kórarnir Skagfirski kammerkórinn og Kirkjukór Hóladómkirkju syngja, auk þess sem Óskar Pétursson og Ívar Helgason flytja söng í messunni. Organistar eru Jóhann Bjarnason og Valmar Väljots.
Að messu lokinni verður boðið upp á veislukaffi og kl. 16.00 hefst hátíðarsamkoma í Hóladómkirkju. Þar flytur sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup ávarp, og gestir fá að njóta tónlistar í flutningi Óskars Péturssonar, Ívars Helgasonar, Valgerðar Rakelar Rúnarsdóttur og Dagmar Helgu Helgadóttur með píanóleikurum Valmar Väljots og Ragnari Þór Jónssyni.
Hápunktur dagskrárinnar verður þegar frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, flytur Hólaræðuna.
Komið heim að Hólum á Hólahátíð!